Af vettvangi kjaramála

Samningur FS við ríkið rennur út 28. febrúar 2015

26.2.2015

Fundur á Landspítala, Hringssal, 27. feb kl 13

Eins og félagsmönnum er kunnugt rennur samningur Félags sjúkraþjálfara við ríkið út á morgun, 28. febrúar. Hið sama má segja um flest önnur aðildafélög BHM. Samræður hafa staðið yfir frá því í haust með 4 viðræðunefndum um afmörkuð málefni, en formlegar viðræður fóru í gang um miðjan janúar. Fyrst um sinn fóru félögin, þar á meðal Félag sjúkraþjálfara, hvert um sig á fundi með samninganefnd ríkisins, en síðan var farið fram með sameiginlega kröfugerð BHM félaganna. Í stuttu máli má segja að viðræður ganga hægt. Afar hægt.

En svo er ekki með starfið innan þeirra félaga BHM sem aðild eiga að þessum viðræðum. Þar er allt á fullu við undirbúning þeirra aðgerða, sem félagsmenn hafa lýst sig reiðubúna til að taka þátt í til að knýja á um bætt kjör. Kjaranefnd launþega FS vinnur hörðum höndum með hinum félögunum að undirbúningi og skipulagningu aðgerða og þar er mikið verk að vinna.

Á vettvangi félagsins hafa verið haldnir margir vinnustaðafundir á stóru sjúkrahúsunum, SAk og Lsh, sem óneitanlega munu vera þungamiðjan í aðgerðunum hjá okkar fólki. Í dag, föstudaginn 27. feb kl 13 verður svo haldinn sameiginlegur fundur aðildarfélaga BHM á Landspítalanum, Hringssal, og mikilvægt að ALLIR mæti þangað.

Í framhaldi verður boðað til allsherjafundar BHM og búast má við að boðað verði fljótlega til atkvæðagreiðslu um verkföll með það í huga að þau geti hafist strax að loknu páskum, að því gefnu að samningar hafi ekki tekist (ljóst er að ekki næst að hefja þau fyrir páska, eins og rætt var á einhverjum vinnustaðafundanna).

Að sjálfsögðu verður reynt til þrautar að ná ásættanlegri niðurstöðu án átaka, en tónninn í samninganefnd ríksins gefur ekki bjartsýni til að ætla að slíkt náist.

Þau skilaboð sem kjaranefnd FS hefur fengið frá félagsmönnum eru okkur afar dýrmæt, 95% félagsmanna eru tilbúnir í aðgerðir skv. skoðanakönnun, og veganestið sem kjaranefnd hefur fengið á vinnustaðafundunum er þetta: Við gerum það sem gera þarf!

Nú er að standa saman, tala í okkur kjark, minna okkur á að það er kominn tími á að við fáum góða kjarabót, minna ríksisstjórnina á að það er ekki bara nóg að tala um að endurreisa heilbrigðiskerfið – það þurfa að koma til efndir!

Ég hvet félagsmenn til að fylgjast náið með öllu því sem berst frá félaginu og trúnaðarmönnum, lesa póstinn sinn daglega, taka þátt í að mynda þrýsting með því að skrifa á kortin góðu (sama og í fyrra), deila statusum og fréttum á samfélagsmiðlum og mæta allsstaðar þar sem boðað er til funda, alltaf. Því meiri óþægindi sem það skapar – þeim mun betra. Við erum í kjarabaráttu og hún er  óþægileg !

Fh. kjaranefndar launþega FS
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS