Staða félagsmanna okkar hjá ríki

Viðræður BHM við ríkið eru strand og aðgerðir eru hafnar til að knýja á um bætt kjör

7.4.2015

Viðræður BHM við ríkið eru strand og aðgerðir eru hafnar til að knýja á um bætt kjör

Sjúkraþjálfarar hjá ríki, sem og félagsmenn allra annarra aðildarfélaga BHM sem aðild eiga að ríkissamningnum, munu leggja niður störf fimmtudaginn 9. apríl 2015 kl. 12 – 16.  Mætt verður á Austurvöll kl. 13 og gengið saman að fjármálaráðuneytinu, þar sem afhentar verða kröfur okkar. Þetta er eina verkfallsaðgerðin sem sjúkraþjálfarar taka beinan þátt í og er fyrst og fremst táknræn samstaða.

Skyldumæting er meðal félagsmanna okkar hjá ríki í þessa göngu, en æskilegt væri ef fleiri sjúkraþjálfarar sæju sér fært að mæta í hana, því kjör eins hóps í okkar röðum skiptir hina hópana máli.

--------------------------------------

Eins og félagsmönnum er kunnugt rann samningur Félags sjúkraþjálfara við ríkið út þann 28. feb sl. Félag sjúkraþjálfara hefur verið í samfloti með öðrum BHM félögum í kjaraviðræðum og nú er svo komið vegna áhugsleysis ríkis á að bæta kjör þessa hóps, að við erum komin út í sameiginlegar aðgerðir með BHM félögunum.

Niðurstaða félagsdóms í máli ríkisins gegn BHM reyndist sú að öll verkföllin hefðu verið boðuð með löglegum hætti og eru því allar aðgerðir komnar í gang skv. áætlun. Aðgerðinar eru að þessu sinni ekki allsherjarverkföll, heldur draga ákveðnir hópar innan BHM vagninn, en hinir veita fjárstuðning. Félag sjúkraþjálfara er eitt þeirra félaga sem ekki leggjur til fólk í verkföllin (fyrir utan fimmtudagseftirmiðdag)  en þarf þess í stað að leggja fram fjármagn. Mikilvægt er að félagsmenn FS sýni samstarfsfólki í verkfalli allan þann stuðning sem það getur.

Rétt er að geta þess að vegna búsetu minnar á Akureyri hefur mér verið falið að vera tengiliður BHM við félagsmenn BHM á sjúkrahúsinu á Akureyri og víðar. Þann 9. apríl verð ég því á Akureyri og stýri þeim aðgerðum sem þar verða í gangi.  Í farabroddi fyrir Félag sjúkraþjálfara í göngunni í Reykjavík verður kjaranefndin okkar og trúnaðarmenn á Landspítalanum.

Við minnum á:

Allir ríkisstarfsmenn mæta í göngu frá Austurvelli kl 13, fim. 9. apríl kl 13

Allir aðrir sjúkraþjálfarar, sem mögulega geta, mæta líka.

Allir ríkisstarfsmenn veita samstarfsfélögum í verkfalli móralskan stuðning í hvívetna.

Allir sjúkraþjálfarar greiða 5.000 kr kröfuna sem komin er í heimabankann, vegna aðgerðanna, sjá: http://www.physio.is/um-felagid/utgafa/frettir/nr/171

Allir svara kjarakönnun BHM, sem er mikilvægt tæki í kjarabaráttu okkar allra.

Allir setja merki BHM á prófíl sinn á facebook, líka og deila fréttum, nota:  #AframBHM .

Félagsmönnum hjá ríki er bent á lokaðan Facebook-hóp (Sjúkraþjálfarar hjá Ríki - verkfall BHM 2015).

Koma svo, áfram BHM !

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS