Heimsþing WCPT 2015

Haldið í Singapore, 1. – 4. maí 2015

13.5.2015

Haldið í Singapore, 1. – 4. maí 2015

Heimsþing sjúkraþjálfara var haldið nú í byrjun maí í Singapore. Átta íslenskir sjúkraþjálfarar sóttu ráðstefnuna ásamt 3.500 kollegum alls staðar frá í heiminum. Meðal fyrirlesara voru þau Peter O'Sullivan, Elizabeth Dean og Emma Stokes, sem kosin var forseti WCPT og við þekkjum frá Degi sjúkraþjalfunar.

Íslenski hópurinn var ekki bara þiggjandi á ráðstefnunni. Okkar fólk hélt 5 erindi og var með 4 veggspjaldakynningar. Þar að auki sá formaður um fundarstjórn í einni fyrirlestralotu og var í málstofu ásamt formönnunum frá Noregi og Bermuda.

Mynd: Sif Gylfadóttir, sjúkraþjálfari á Reykjalundi, futti erindi á ráðstefnunni.

Nánari fréttir, upplýsingar og myndir má sjá á heimasíðu heimssambandsins, http://www.wcpt.org/congress/articles

Einnig hafa verið settar inn myndir á facebook síðu félagsins.

Íslenski hópurinn samanstóð af 8 sjúkraþjálfurum og 3 „viðhengjum“. Eftir stranga daga á ráðstefnunni var tekið upp léttara hjal, ýmist íslenski hópurinn einn og sér, eða í hóp erlendra kollega. Sérstaklega var ánægjulegt að hitta allra þjóða kollega á svokallaðri „PT pub night“ og ef einhverjum óskilgreindum ástæðum lentu íslenskir, írskir og eistneskir sjúkraþjálfarar þar saman í einni bendu og náðu vel saman.

Í lok ráðstefnunnar var næsta ráðstefna kynnt og verður hún haldin í Höfðaborg, Cape Town, í júlíbyrjun 2017. Allur íslenski hópurinn er strax byrjaður að skipuleggja för þangað. Það er nefnilega svo að þegar maður byrjar að sækja þessar ráðstefnur og uppgötvar kraftinn, metnaðinn, faglegu innspýtinguna sem maður fær og þær alþjóðlegu tengingnar sem maður myndar, þá er það ekki spurning að þetta eru ráðstefnur sem fólk sækir í að fara á aftur og aftur.

Heimsráðstefna sjúkraþjálfara er að sjálfsögðu verulega víðfeðm og sú gagnrýni hefur heyrst að of lítið framboð sé af efni einstakra geira sjúkraþjálfunar til að áhugavert sé að sækja þessar ráðstefnur. Frekar borgi sig að fara á sérhæfðari fagráðstefnur í einstökum geirum. Það sjónarmið má til sanns vegar færa, en rétt er að benda á að það jafnast samt ekkert á við heimsþing sjúkraþjálfara hvað varðar það að taka þátt í hringiðu sjúkraþjálfunar í heiminum, hitta á göngum alla fremstu fræðimenn og forsvarsmenn sjúkraþjálfunar á heimsvísu og finna að maður tilheyrir alþjóðlegu samfélagi kollega sem saman mynda sterka heild fagsins á heimsvísu. Einnig er rétt að benda á að á heimsþinginu eru fjölmargar málstofur, panelumræður og alls kyns umræðuvettvangar og fyrirlestrar sem tengjast sjúkraþjálfun hvaða geira hennar svo sem maður starfar í. 

Heimþing sjúkraþjálfara í Singapore 2015 verður ógleymanlegt öllum þeim sem það sóttu og nú er bara að byrja að leggja fyrir ferð til Suður-Afríku í júlí 2017 !

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS