Langvarandi verkur í hné

Hvað er til ráða?

Stór hluti daglegra athafna krefst hreyfinga um liðamót í neðri útlimum. Þegar verkir koma fram í einu eða fleirum þessara liðamóta við hreyfingar sem við teljum sjálfsagðar fer það fljótt að hafa slæm áhrif á heilsu og líðan. Vel þekkt eru hnévandamál meðal þeirra sem stunda hlaup, crossfit, lyftingar og aðrar íþróttir með mikilli ákefð en rannsóknir hafa einnig sýnt að 1 af hverjum 5 glímir einhvern tímann á lífsleiðinni við vandamál tengt hnjám hvort sem þeir stunda íþróttir eða ekki.

Langvarandi hnéverkur getur verið afleiðing áverka eða langvarandi álags á hnélið s.s. vegna slæmrar vinnustöðu eða mikillar líkamsþyngdar. Þrátt fyrir mismunandi orsakir eiga þær það sameiginlegt að verkurinn er afleiðing af röngu hreyfimynstri kringum hnélið sem setur álag á liðinn og veldur með tímanum vefjaskaða, sem orsakar hnéverk. Með því að leiðrétta hreyfimynstrið má minnka álagið á liðinn sem gefur vefnum tækifæri á að gróa og verkurinn  dvínar.

Orsakaþættir langvarandi verks í hné

Eitt eða fleiri atriði geta valdið auknu álagi á hnéliðinn og leitt til langvarandi hnéverks.
Stífleiki í einum lið getur valdið auknu álagi á aðra liði. Flestar hreyfingar sem við framkvæmum ná yfir fleiri en ein liðamót, t.d. að ganga upp stiga eða setjast niður krefst hreyfingar um ökkla, hné, mjaðmir og mjóbak. Stífleiki í ökklum og mjöðmum setur aukið álag á hnéliðinn. Margir eru t.d. með stífan ökklalið eftir að hafa misstigið sig og einnig getur skóbúnaður og fleira stuðlað að stífleika í ökklum. Stífleiki í mjöðmum er einnig   algengt vandamál í dag sökum mikillar setu í vinnu og daglegu lífi. Þetta getur valið langvarandi álagi á hnélið og því leitt til hnéverkja.

Slök vöðvastjórn veldur gjarnan slæmu hreyfimynstri. Slök vöðvastjórnun í mjaðmavöðvum er algeng ástæða hnéverks, því þá leitar hnéð gjarnan inn á við sem setur mikið álag á liðinn (mynd 2), t.d. í hreyfingum eins og hnébeygju, réttstöðulyftu, uppstigi og framstigi. Þessar hreyfingar framkvæmum við oft á dag, t.d. þegar við setjumst niður, göngum upp og niður stiga eða beygjum okkur niður.

Algeng viðbrögð við verk er að forðast hreyfingar sem framkalla verkinn og við hnéverk hættir fólk gjarnan að hreyfa sig. Hreyfingarleysið veldur með tímanum minnkuðum vöðvastyrk sem veldur verri vöðvastjórn og getur því átt þátt í að hnéverkur þróast í langvarandi verk.

Líkamsstaða spilar einnig oft stóran þátt í verkjavandamálum. Algeng líkamsstaða er að standa með yfirrétt hnén sem getur stafað af of miklum liðleika eða slakra vöðva í kringum hnélið. Við það að standa með yfirrétt hnén eru vöðvarnir kringum hnéliðinn ekki að virka sem skildi og í staðinn er álagið á liðböndunum sem veldur ótímabæru sliti.

Fleiri þættir geta átt þátt í þróun langvarandi hnéverks s.s. einhæft álag við æfingar sem veldur ójafnvægi í vöðvastyrk og þar með vitlausu hreyfimynstri, auk þess sem einkenni frá mjóbaki eða spjaldbeinslið geta leitt niður í hné.

Lausnir

Mikilvægast er að greina orsök hnéverks og hefja meðferð sem minnkar álagið á liðinn, auk þess sem fræðsla er mikilvægur hluti sjúkraþjálfunar.

Hreyfimynstrið er greint og rétt líkamsbeiting kennd. Með því að liðka stífar mjaðmir og ökkla má minnka álagið á hnéð og skila þá teygjur og mjúkvefjameðferð góðum árangri, þar sem m.a. er losað um stífa vöðva. Rétt framkvæmdar styrkjandi æfingar eru jafnframt mikilvægar til að styrkja slaka vöðva í kringum mjaðmir og hné. Oft er bandvefurinn kringum liðinn stífur, t.d. liðpoki og liðbönd og er liðlosun góð meðferð til að liðka þá vefi til.

Í langvinnum verkjavandamálum er mikilvægt að líta á líkamann í heild því oft er grunnvandamálið sem þarf að vinna með ekki liðurinn sem gefur verkinn heldur liðirnir í kring.

Fyrirbyggjandi meðferð

Þegar hnéverkur er afleiðing langvarandi álags á hnélið hefði oft mátt fyrirbyggja hann með því að leiðrétta hreyfimynstrið og minnka þannig álagið. Sem dæmi eru stífar mjaðmir og ökklar ekki vandamál í byrjun meðan hnéliðurinn getur tekið á sig aukið álag, það er ekki fyrr en þessi stífleiki er farinn að valda verk sem það er orðið að vandamáli en hefði mátt fyrirbyggja með réttri meðferð sjúkraþjálfara. 
Þegar hnéverkur er afleiðing áverka er mikilvægt að reyna að fyrirbyggja   langvarandi verkjavandamál með meðferð sem stuðlar að því að ná fullri hreyfingu í hné, styrkja og auka stöðuleika í kringum hnéð.

Vignir Ingi Bjarnason - Táp sjúkraþjálfun