Febrúar 2018

Pistill formanns

Pistill formanns

Um mánaðarmótin síðustu var fundað stíft hjá okkur í húsakynnum BHM vegna miðlægs kjarasamnings okkar við ríkið. Saminganefnd ríkisins óskaði eftir því að fá að “flytja í húsið” og þannig freista þess að taka hressilega samninglotu með þá von að samningar tækjust við aðildarfélög BHM. Þetta gekk eftir og skrifaði ég ásamt kjaranefnd launþega FS undir nýjan samning síðdegis föstudaginn 2. febrúar og var samningurinn samþykktur af félagmönnum í rafrænni kosningu.

Varla var blekið þornað á samningnum þegar samninganefnd sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara fór að hafa veður af áhyggjum Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) af samningi sjúkraþjálfara. Svo fór að ég og nefndin var boðuð á fund SÍ mánudaginn 19. febrúar og tilkynnt að vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins væri kostnaður vegna sjúkraþjálfunar kominn langt frá úr áætlunun og verið væri að skoða þann möguleika að segja upp rammasamningi sjúkraþjálfara. Daginn eftir, þann 20. febrúar fékk félagið svo sent afrit af bréfi frá SÍ til heilbrigðisráðherra þar sem honum er tilkynnt að SÍ hyggjist segja samningnum upp.

Við ákvaðum að óska snarlega eftir fundi með heilbrigðisráðherra og sendum út tilkynningu um málið til sjálfstætt starfandi félagsmanna. Fjölmiðlar fengu áhuga á málinu og var ég í viðtali bæði við Kjarnann og í sjónvarpsfréttum RUV. Það ýtti greinilega við ráðuneytinu því aðstoðarmaður ráðherra hafði samband við formann á föstudeginum þar sem farið var yfir málið og síðdegis barst tilkynning þess efnis að SÍ hefði ákveðið að fresta uppsögn samnings.

Formaður FS og samninganefnd sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara áttu svo góðan fund með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sl. þriðjudag, 27. feb. Farið var yfir stöðu mála, ræddar mögulegar lausnir og ákveðið að horfa til framtíðar varðandi samstarf og samráð. Ekki var minnst á að segja ætti samningi sjúkraþjálfara upp, en við getum þó aldrei útilokað að á einhverjum tímapunkti komi sú umræða upp aftur. Ljóst er að við erum að fara í frekari viðræður um að finna lausn á fyrirséðri umframfjárþörf upp á 300 milljónir á þessu ári.Við reiknum með að settur verði á laggirnar vinnuhópur með aðkomu velferðarráðuneytis, SÍ, sérfræðings og sjúkraþjálfara til að fara yfir samninginn, notkun hans og árangur

Mitt í þessum hasar var aðalfundur félagsins haldinn þar sem ég var endurkjörin formaður til næstu tveggja ára og þakka ég það traust sem mér er sýnt. Veigur Sveinsson varaformaður gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og eru honum færðar miklar og góðar þakkir fyrir 5 ára varaformennsku, auk þess sem hann var í stjórn FSSS þar á undan. Arna Steinarsdóttir ritari gaf ekki kost á sér áfram þar sem hún fór í barnsburðarleyfi. Inn í stjórn koma þau Gunnlaugur Már Briem og Guðný Björg Björnsdóttir.

Að lokun aðalfundi var boðið upp á léttan kvöldverð en að honum loknum var ör-málþing með góðum gesti. Þorsteinn Víglundsson alþingismaður kom og ræddi við félagsmenn um heilbrigði þjóðarinnar, áskoranir heilbrigði- og félagskerfisins og hvernig sjúkraþjálfarar geta komið inn með ákveðnar lausnir í þeim málum.

Kvöldinu lauk með því að lyfta glösum og fagna því að nú eru liðin fimm ár frá sameiningu sjúkraþjálfarafélaganna þriggja.

Annasömum mánuði er þannig lokið, en við tekur undirbúningur undir faglegar veislur þar sem Dagur sjúkraþjálfunar er framundan þann 16. mars og í apríl verðum við gestgjafar alþjóðlegu ráðstefnunnar ICPPMH2018, sem ég hvet félagsmenn til að sækja.

 

Með kveðju,

Unnur Pétursdóttir
Form. FS