Saga félagins

Félag sjúkraþjálfara var upphaflega stofnað þann 26. apríl 1940, og hét þá Félag nuddkvenna. Árið 1962 var nafni félagsins breytt í Félag íslenskra sjúkraþjálfara og nú síðast voru fag- og stéttarfélög sjúkraþjálfara sameinuð í Félag sjúkraþjálfara, eða frá 1. janúar 2013.

Félagsmenn Félags sjúkraþjálfara eru nú á árinu 2014 tæplega 600 talsins og skiptast í nánast tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn starfar við sjúkraþjálfun á hjúkrunarheimilum, sjúkra- og endurhæfingarstofnunum og hinn hópurinn á einkareknum starfsstofum sjúkraþjálfara.

Haustið 2012 var ákveðið með atkvæðagreiðslu í öllum félögunum þremur, FÍSÞ, SSÞ og FSSS, að sameina öll félögin undir einn hatt með mismunandi deildum. Stofnfundur hins sameinaða félags var haldinn þann 10. desember 2012 og hóf félagið starfsemi á endurnýjuðum grunni þann 1. janúar 2013.  Félag sjúkraþjálfara er aðili að BHM.

 

Félag sjúkraþjálfara fagnar Alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar 8. september ár hvert, ásamt 350.000 starfssystkinum sínum í 106 löndum, í gegnum Heimssamband sjúkraþjálfara (World Physiotherapy, WPT), sem það hefur verið aðili að frá árinu 1963 (  www.world.physio ).

Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020

Formenn félagsins frá upphafi

Ingunn Thorstensen                1940-1955

Vivian Svarason                     1955-1968

Sigríður Gísladóttir                1968-1979

Kristín Guðmundsdóttir         1979-1985

Hilmir Ágústsson                   1985-1988

Guðrún Sigurjónsdóttir          1988-1991

Hulda Ólafsdóttir                   1991-1995

Sigrún Knútsdóttir                 1995-2001

Íris Marelsdóttir                     2001-2002

Auður Ólafsdóttir                  2002-2008

Héðinn Jónsson                      2008-2013

Unnur Pétursdóttir                 2013- 2022

Gunnlaugur Már Briem          2022 - 

 

Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020

Helstu merkisatburðir í sögu félagsins og fagsins

1940 Félag nuddkvenna stofnað

1956 Sjúkraþjálfari verður löggilt starfsheiti.

1962 Fyrstu lögin um sjúkraþjálfun sett, nafnbreyting félagins í Félag íslenskra sjúkraþjálfara

1973 Fyrsti samningur sjúkraþjálfara við sjúkrasamlagið (nú Sjúkratryggingar Íslands).

1976 Námsbraut í sjúkraþjálfun stofnuð við HÍ.

1980 Fyrstu sjúkraþjálfararnir útskrifaðir frá HÍ.

2001 Sérfræðiviðurkenningar í sjúkraþjálfun veittar af Landlækni í fyrsta sinn.

2013 Ný lög um sjúkraþjálfun og sjúkraþjálfara. Faglegt sjálfstæði sjúkraþjálfara fest í lög.

2014 Auglýst í fyrsta sinn eftir sérfræðingum í sjúkraþjálfun (Landspítalinn).

 

Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020

Stéttarfélag sjúkraþjálfara (SSÞ)  

Stéttarfélag sjúkraþjálfara (SSÞ) var stofnað þann 30. september 1995 og tók þá við samningsumboði fyrir flesta sjúkraþjálfara sem voru launþegar, hvort sem þeir störfuðu á opinberum stofnunum eða sjálfseignarstofnunum. SSÞ gerðist aðili að Bandalagi háskólamanna (BHM).

Formenn SSÞ: Jóhanna Konráðsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir,  Jón Gunnar Þorsteinsson, Aðalheiður K. Þórarinsdóttir, Arndís Bjarnadóttir, Guðlaug Kristjánsdóttir, Kristín E. Hólmgeirsdóttir, Steinunn Arnars Ólafsdóttir.

 

Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020

Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfa (FSSS)

Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfa (FSSS) var stofnað árið 1990 og var ætlað að gæta hagsmuna félagsmanna sem störfuðu sjálfstætt samkvæmt samningum við Tryggingastofnun Ríkisins (TR).

Formenn: Pétur Örn Gunnarsson, Unnur Pétursdóttir, Adda Sigurjónsdóttir, Kristján Hjálmar Ragnarsson, Haraldur Sæmundsson.

 

Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020

Upphaf sjúkraþjálfunar

Sjúkraþjálfun á í raun rætur að rekja 5.000 ár aftur í tímann en m.a. Kínverjar, Japanir og Egyptar lögðu áherslu á aðferðir eins og böð, nudd og æfingar til að fyrirbyggja sjúkdóma og efla heilsu. Telja má að Herodicus hinn gríski, sem uppi var í kringum 400 f. Krist, sé "faðir sjúkraþjálfunar" líkt og Hippocrates er talinn vera "faðir læknisfræðinnar" en Hippocrates er talinn einn af nemendum Herodicusar. Talið er að Herodicus hafi skrifað kafla um líkamsþjálfun til að bæta andlega og líkamlega heilsu í bók Hippocratesar, "On Regimen". Hippocrates notaði fyrstur manna hugtakið "Endurhæfing" ("analepsis" á grísku) og lagði hann áherslu á gildi æfinga og að líta á manninn í heild við meðferð.

Per Henrik Ling frá Svíþjóð er oft nefndur faðir sjúkraþjálfunar nútímans og stofnaði hann fyrsta sjúkraþjálfaraskólann á Norðurlöndunum á fyrri hluta 19. aldar. Lömunarveikifaraldrar sem og heimsstyrjaldirnar tvær á 20. öldinni gerðu það svo að verkum að mikil eftirspurn varð eftir fólki með þekkingu á endurhæfingu og þjálfun og varð það til þess að sjúkraþjálfun sem slík varð að sérstakri heilbrigðisstétt.

 

Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020

 

Saga sjúkraþjálfunar á Landspítala árin 1967 - 2015

 

 

Ævintýri á gönguför eftir bugðóttum spítalastíg í 43 ár

Skyggnst til baka í Sjúkraþjálfun Landspítalans að vori 2016

Undanrás

Árið 1967 kom undirrituð heim frá námi í sjúkraþjálfun í Noregi og réði sig til starfa á Landspítalanum (Lsh) ásamt Ástu Claessen sem var í sama námi. Í sjúkraþjálfaranámi í Osló var á þessum árum einnig kennt til íþróttakennaraprófs, höfðum við því réttindi til að starfa sem íþróttakennarar í Noregi. Sjúkraþjálfaranám í Osló var í tengslum við Háskólann og inntökuskilyrði var stúdentspróf og það að hafa starfað á sjúkrahúsi a.m.k. 3 mánuði. Ég fékk mína sjúkrahússeldskírn á Ullevål Sykehus í Osló sem ,,krisehjelp”. Um 300 sóttu um nám og um 70 voru teknir inn. Það hjálpaði að vera Íslendingur! Mikil stéttarskipting var á Ullevål á þessum tíma. Þegar yfirmaður deildarinnar sem ég starfaði á frétti að ég hefði komist inn í skólann þ.e. í þetta fína nám sem aðallega læknabörn og Noregsmeistarar í íþróttagreinum komust í hækkaði ég mikið í tign, mátti t.d. drekka kaffi með þeim æðri.

Örfáir sjúkraþjálfarar voru á Íslandi á þessum tíma enda þurfti að fara utan til alls náms í sjúkraþjálfun. Við Ásta vorum númer 17 og 18 sem skráðu sig í Félag íslenskra sjúkraþjálfara þegar við hófum starf á Landspítala 1967. Sigurleif Hallgrímsdóttir var fyrsti sjúkraþjálfari Lsp, hóf starf þar upp úr 1930 þ.e. skömmu eftir að spítalinn tók til starfa sem sýnir mikla framsýni á þeim tíma.

Landspítalinn

Ég var svo yfir mig ánægð með að fá vinnu að loknu námi á svo fínni stofnun sem Lsp að mér hugkvæmdist alls ekki að spyrja um laun. Ekki víluðum við heldur fyrir okkur, þessir fáu sjúkraþjálfarar sem þarna störfuðu, að vinna lengur en til stóð án þess að fá greidda yfirvinnu, við kláruðum bara það sem þurfti að gera hverju sinni, það var svo gefandi og skemmtilegt í vinnunni . Starfið var fjölbreytt og mjög áhugavert og okkur fannst við hafa mikið fram að færa. Þó við vildum helst kunna miklu meira töldum við okkur geta bætt líðan og færni sjúklinga umtalsvert og þar með flýtt fyrir útskrift af spítalanum. Húsnæði sjúkraþjálfunar var mjög lítið, tveir æfingabekkir og lítið af tækjabúnaði. Unglæknir sá þá um að gefa hljóðbylgjur hjá okkur til að drýgja tekjur sínar! Fljótlega eftir að við Ásta tókum til starfa fékk sjúkraþjálfunin frábært, rúmgott og aðgengilegt húsnæði í kjallara. Þann 18. febrúar 1969 birtist ítarleg grein um starfsemi endurhæfingardeildar Landspítalans í Morgunblaðinu. Þar kom fram að 20 sjúkraþjálfarar væru starfandi á öllu landinu og þar af 5 á Lsp þ.e. Sigurleif Hallgrímsdóttir, Sigríður Gísladóttir, María Ragnarsdóttir, Unnur Guttormsdóttir og Kalla Malmquist, tvær stöður voru sagðar lausar. Hið rétta var að 5 sjúkraþjálfarar voru starfandi þegar blaðamen mættu á staðinn auk þess var einn fjarveraandi þ.e. Svanhildur Elentínusdóttir sem starfað hafði sem sjúkraþjálfari við deildina síðan 1965 en Ásta Claessen sem áður er getið hafði brugðið sér til USA í framhaldsnám. Aðstaða fyrir endurhæfingu hefur verið flutt tvisvar eftir þetta og er nú í miðlægu húsnæði á 14D sem er mjög nálægt legudeildum.

Sem lítið dæmi um margt skemmtilegt í starfinu á Lsp má nefna að við dönsuðum við sjúklinga með Parkinson sjúkdóm með góðum árangri. Það var ótrúlegt að ná þeim varla upp úr hjólastól en þegar tónlistin var sett í gang þá svifu sumir þeirra hreinlega með okkur í dansi um æfingasalinn.

Margs er að minnast, ég nefni hér atvik frá upphafi starfs míns. Ég var að þjálfa mann sem hafði verið aflimaður á fæti. Þótti mér stúfurinn heldur ólögulegur fyrir hulsu gervifótar svo ég tók á mig rögg og bankaði uppá hjá Dr. Snorra Hallgrímssyni yfirlækni. ,,Gakktu í bæinn” sagði Snorri þegar ég kíkti feimin í gættina, hann bauð mér sæti gegnt sér. Þá hóf ég upp erindið skjálfrödduð. Sagði honum að í Noregi hefðu stúfarnir verið vafðir á sérstakan hátt með ákveðnu teygjubindi til að bæta formið og að mig fýsti að gera slíkt hið sama. Hann horfði á mig góða stund og sagði síðan snöggt ,,þú mátt reyna það, Karlína” mér brá við því sjaldan hafði ég verið kölluð Karlína síðan ég var tekin upp í skóla á Akureyri. Þetta fór vel, stúfurinn komst vel fyrir í hulsunni að lokum og gervifóturinn þjónaði sínum tilgangi. Gervifætur og hulsur hafa þróast mjög mikið síðan þetta var sem og skurðaðgerðir og sjúkraþjálfun.

Fyrsta verk mitt á nýja Borgarspítalanum (Bsp) vann ég meðan ég var ennþá við störf á Lsp. Hringt var frá Bsp og beðið um aðstoð sjúkraþjálfara við að meðhöndla sjúkling með lungnabólgu. Ég tók að mér verkið ásamt Sigríði Gísladóttur yfirsjúkraþjálfara. Í ljós kom að um var að ræða mætan mann, prófessor við Háskóla Íslands og fórum við Sigríður til skiptis að meðhöndla hann. Ekki ætla ég að lýsa nákvæmlega þeim aðferðum sem við beittum en til gamans má geta þess að ég fékk lánaðan hraðsuðuketil til að mynda gufu við vit hans um leið og ég hallaði honum, bankaði, vibreraði, hristi til að ná upp seigu, óhrjálegu slíminu. Blessuðum manninum batnaði og kallaði hann okkur lífgjafa sína, sem við göntuðumst með. Margt hefur breyst í meðferð lungnabólgna síðan þetta var.

Einn vordag árið 1969 kom Dr. Friðrik Einarsson að máli við mig um nýja Borgarspítalann. Hann horfði á mig bænaraugum og sagði: “Ef ég fæ ekki sjúkraþjálfara til starfa á Borgarspítalanum hætti ég að gera við brotnar gamlar konur þar”. Þetta varð auðvitað til þess að ég tók að mér að vinna á Bsp u.þ.b. 3 klst. eftir vinnutíma á Lsp virka daga í um þrjá mánuði. Sótti ég síðan um auglýst starf yfirsjúkraþjálfara þar og var ráðin frá 1. sept 1969. Guðlaug Sveinbjarnadóttir sjúkraþjálfari var á lausu og brúaði bilið.

Þegar ég yfigaf mjög góða starfsfélaga á Lsp kvaddi ég með þessum orðum:

Sagt upp minni stöðu hef

og sótt um uppá Borgar

satt að segja lítið sef

sökum trega-sorgar.

Hærri stöð´ og hærri laun

því heita skal stjórnandi

en sálin er sem skræluð baun

á stórum eyðisandi!

Borgarspítalinn

Ekki hefði ég þurft að kvíða skiptunum því tekið var á móti mér opnum örmum. Voru þar fremst í flokki auk Friðriks Einarssonar, yfirlæknis á skurðdeild, Sigurlín Gunnarsdóttir, forstöðukona, Haukur Benediktsson, framkvæmdastjóri og Dr. Óskar Þórðarson, yfirlæknir á lyflækningadeild. Sjúkraþjálfun heyrði beint undir framkvæmdastjóra svo ekki voru boðleiðir flóknar. Fyrsti sjúkraþjálfarinn sem ég réði til starfa með mér á Bsp, Åsta Viken, er norsk og hafði starfað áður hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Hún býr í Þrándheimi og við erum ennþá í góðu sambandi.

Húsnæði og skráning

Þegar ég hóf störf á Borgarspítala var ekkert sérstakt húsnæði tilbúið fyrir starfsemina en þegar hafði verið ákveðið að hún skyldi hýst á 11. hæð í turnbyggingu. Fékk ég þar með tækifæri til að skipuleggja það og búa tækjum. Mikið var þjálfað í sjúkrarúmum, á sjúkrastofum og á göngum en mikilvægt var að hafa aðstöðu bæði fyrir færanlegan og sérhæfðan, gólffastan tækjabúnað sem hægt var að flytja sjúklingana að. Sem dæmi um tæki í sal í turni má nefna gólffasta göngugrind við spegil, trissur, armhjól, þrekhjól og breiðan æfingabekk sem gerði mögulegt að þjálfa sjúkling í að færa sig milli bekks og hjólastóls, snúa sér og þjálfa á ýmsa vegu. Sérstakt rými var með tveimur stillanlegum meðferðabekkjum og tjöldum umhverfis, pottum með heitum bökstrum og ísbökstrum, rafmagnstækjabúnaði svo sem stuttbylgjum, hljóðbylgjum og nuddtæki (vibrator). Lítil kompa var fyrir skrif og kaffisopa þar sem gluggakistan var aðeins breikkuð og gerð að ,,skrifborði”. Þar voru skrifaðar skýrslur og framvinda meðferða á kort sem komust fyrir í jakkavasa. Læknum var gerð grein fyrir framvindunni og þeir / læknaritarar skráðu frá okkur upplýsingar í sjúkraskrár. Í horn þessarar kytru var troðið rafmagns hálstogtæki (TruTrac), annars beittum við mikið handtogi. Við Ásta sem vorum samferða í námi vorum svo heppnar að hafa sem aðalkennara einn af frumkvöðlum í ,,manuel theraphy” í Noregi, Olav Evjenth. Hann kom síðar nokkrum sinnum til Íslands og hélt námskeið fyrir sjúkraþjálfara.

Turnlyftur voru/eru litlar og rúma aðeins einn hjólastól og oft var brösótt að koma þeim í og úr lyftu einkum ef fótafjalir þurftu að vera hækkaðar.

Útvegun starfsfólks

Okkur Hauki Benediktssyni framkvæmdastjóra kom saman um að bjóða smávegis námsstyrk til að laða að sjúkraþjálfara gegn því að þeir kæmu á Bsp til starfa í 2 ár að lágmarki. Þetta skilaði mjög góðum árangri og tókst okkur að fá úrvals fólk til starfa sem vann á spítalanum í mörg ár, jafnvel alla starfsævina. Þegar húsnæðið var tilbúið í turni 1970 fékk ég að ráða fyrst einn og síðar annan ófaglærðan aðstoðarmann sem var mikill fengur, þær Ragnheiður Sigmundsdóttir og Björg Jónsdóttir riðu á vaðið. Einkum hjálpuðu þær stöllur við að flytja sjúklinga milli legudeilda og deildar sjúkraþjálfunar í turni auk þess að hjálpa til við ýmislegt sem sneri að meðferð og æfingarhúsnæði. Hefur mér ætið þótt mikið til aðstoðarfólks okkar koma og kallaði það gjarna aðalstoðir.

Réðum við allmarga erlenda sjúkraþjálfara til starfa meðan ekki var mögulegt að læra sjúkraþjálfun hér heima. Flestir komu frá Norðurlöndum, margir frá Hollandi en líka frá Þýskalandi, einn frá USA og einn frá Suður Afríku svo eitthvað sé nefnt. Það var dýrmætt að fá þessa erlendu starfsmenn sem báru með sér ýmsa þekkingu og menningu. Ég var iðulega með útlendinga í mat á tyllidögum og jólum á þessum árum. Þeim var hins vegar útvegað húsnæði á vegum spítalans.

Þverfagleg samvinna

Það var sérstaklega gott samstarf á spítalanum í heild, mikill metnaður og frábærir stjórnendur. Starf þessa nýja spítala var í mótun og mikill áhugi fyrir því að gera allt faglega og sem best fyrir sjúklinga og starfsfólk. Hver sérhæfða deildin opnaði eftir aðra og sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum réðu sig til starfa. Þetta var skemmtilegur og lærdómsríkur vinnustaður með færu og fræðsluglöðu starfsfólki. Minnisstætt er mér þegar Dr. Óskar Þórðarson bauð mér að vera dús í turnlyftunni. Þá tíðkaðist að þéra þann mæta mann og fleiri.

Félagsstarf var töluvert bæði innan deilda og sameiginlegt. Áramótakokteillinn var m.a. mjög rómaður. Til gamans má geta þess að þegar sá viðburður var haldinn í nýja stóra sal barnaheimilis spítalans í upphafi þá lauk ekki gleðinni fyrr en æðstu stjórnendur höfðu rennt sér á fullu skriði niður stóru barnarennibrautina milli hæða.

Nám, fag og framkvæmd

Flestir sóttu nám í sjúkraþjálfun til Norðurlanda, nokkrir fóru þó til Bretlands, Kanada og víðar.

Það var mjög hvetjandi hversu jákvæðir læknar Borgarspítalans voru almennt gagnvart sjúkraþjálfurum og treystu þeim vel. Þeir þekktu til sjúkraþjálfunar frá spítölum erlendis þar sem þeir höfðu verið við nám og störf. Sjúkraþjálfarar sóttu námskeið mest til Norðurlanda á þessum árum og voru í góðu sambandi við fagþróun þar sem þeir höfðu stundað grunnnám og víðar. Fræðslunefnd Félags íslenskra sjúkraþjálfara stóð fyrir fræðslu á ýmsum sviðum og iðulega fengust erlendir fyrirlesarar og námskeiðshaldarar.

Í upphafi var vinnuvika sjúkraþjálfara 36 stundir eins og á hinum Norðurlöndunum og samþykkt að það sama yrði upp á teningnum hér, þar sem starfið væri bæði líkamlega og andlega erfitt. Samþykkt var að vinnufatnaður væri sportlegri en annar sjúkrahúsfatnaður þar sem sjúkraþjálfarar voru m.a. skríðandi og krjúpandi við störf í sjúkrarúmum og á gólfi vítt og breitt! Ein uppáhalds ,,hjúkkan” mín hringdi einu sinni upp í turn og sagði: ,,Kalla, nú verð ég að fá strax sjúkraþjálfara eða lyftara til mín”. Ekki var handbær lyftari svo ég skellti mér í verkið. Annað skondið dæmi sem skýrði þörf á ,,íþróttabúningi” er eftirfarandi atburður. Ég var að koma inn á sjúkragang og sá sjúkling vera að detta. Ég tók undir mig stökk og skutlaði mér undir hann – hvorugt meiddist! Annað létt dæmi langar mig til að nefna sem sýnir að starfið vék ekki úr huga manns á þessum árum. Ég var að þjálfa roskinn mann eftir aflimun. Lækni hans þótti ekki taka því að panta á hann gervifót, taldi víst að maðurinn gæti ekki notað gervifót sökum lélegrar færni og aldurs. Mér tókst að telja lækninum hughvarf og lagði mig nú verulega fram um að koma blessuðum manninum á fætur. Það tókst enda þjálfaði ég hann dag og nótt! Ég vaknaði nefnilega einu sinni við það að ég hafði verið að kalla ,,réttu þig af, réttu þig af “og maki minn vakti mig með þessum orðum ,,gefðu honum afréttara, gefðu honum afréttara” Sá gamli komst á legg og gekk um sperrtur áður en hann yfirgaf spítalann.

Grensásdeild Bsp - 1973

Gaman var að taka þátt í uppbyggingu nýrrar endurhæfingardeildar Borgarspítala á Grensási. Ásgeir Erlendsson taugasjúkdómalæknir (sem síðar fékk einnig réttindi sem endurhæfingarlæknir) var ráðinn yfirlæknir þar, en sjúkraþjálfun Borgarspítala átti að sinna deildinni sem öðrum deildum spítalans. Samstarf við Ásgeir var mjög gott.

Barðist ég fyrir því að fá húsnæði á 1. hæð fyrir sjúkraþjálfun sem tókst, en mikið hafði verið reynt að pota okkur í kjallara hússins þar sem allt of lágt var til lofts fyrir sjúkraþjálfun. Ákveðið var að teppaleggja gólfflísar þar sem átti að verða æfingasalur, en hafði verið skipulagt sem eldhús. Það var svo stórt að halda mætti að þarna hefði átt að vera kokkaskóli. Ýmsar hugmyndir höfðu verið á lofti um nýtingu hússins. Þetta var víst ódýrasta lausnin og teppið dugði lengi (allt of lengi!). Þegar best lét voru samtals 60 endurhæfingarrúm á Grensási á tveimur hæðum og síðar einnig dagdeild. Sjúkraþjálfarar ,,róteruðu” milli Grensásdeildar og annarra deilda spítalans. Til að byrja með á 3ja mánaða fresti síðar 6-12 mánaða og loks festust þeir á deildum sem þeir höfðu mestan áhuga á og hófu að sérhæfa sig á ákveðnum fagsviðum. Við réðum tímabundið til okkar á Grensás Susan Novotny sjúkraþjálfara sem starfaði við meðferð mænuskaddaðra á Sunnås í Noregi sem er sérhæfð stofnun m.a. fyrir slíka endurhæfingu. Hún flutti með sér góða þekkingu þaðan. Á sama tíma fór Sigrún Knútsdóttir til starfa á Sunnås í um ár og hefur þróað áfram endurhæfingu á þessu sviði. Ég var um tíma í 50% starfi á bráðaspítalanum og 50% á Grensásdeild, reyndi að halda þannig utanum sjúkraþjálfun spítalans. Ekki var hægt að fá íslenska iðjuþjálfa til starfa en okkur tókst að ráða þýskar systur, önnur kom frá starfi í Noregi (Sunnås) og hin frá Þýskalandi, Margret og Hildegard Demleiter. Þær eru fyrstu iðjuþjálfar spítalans og störfuðu á Grensásdeild. Grensásdeild tók að sér langlegudeild á Heilsuverndarstöð og róteruðu sjúkraþjálfarar þangað líka.

Nokkru sinnum höfum við gegnum tíðina þurft að berjast fyrir tilveru Endurhæfingardeildar á Grensási. Þegar þrengdi að á Borgarspítalanum var iðulega litið hýru auga til hennar. Okkur tókst ætið með harðfylgni að sannfæra hlutaðeigandi um mikilvægi deildarinnar fyrir sjúklingana og einnig fyrir rekstur bráðaspítala.

Sundlaug við Grensásdeild vígð 1985

Fljótlega fórum við að berjast fyrir því að fá þjálfunarlaug við Grensásdeild sem við töldum að myndi bæta þjálfunarmöguleika sjúklinganna mikið. Það var ekki fyrr en merkir stjórnmálaleiðtogar sem hlustað var á kynntust starfseminni af eigin raun og einnig því frábæra framtaki að við bárum sjúklinga deildarinnar á þingpalla sem það tókst að fá fjárveitingu fyrir lauginni. Sátum við Sigrún og Ásgeir á fundum með arkitektum og byggingarverktökum sem tóku tillit til þess sem við höfðum fram að færa. Til gamans má geta þess að við útbjuggum lítil skapalón af hjólastólum og ambulans í réttum hlutföllum. Ókum við þeim um sundlaugarteikninguna sem gafst vel þar sem okkur tókst með því að sýna fram á þörf fyrir aukið rými þar sem að þrengdi. Glæsileg og mjög góð þjálfunarlaug komst upp þrátt fyrir miklar hremmingar og erfiðleika byggingaverktaka. Sú besta norðan Alpafjalla sögðum við alltaf. Já, allt er gott sem endar vel eins og sagt er (Annars frétti ég nýverið að eitthvað væri nú þessi frábæra sundhöll farin að gefa sig).

Nýtt húsnæði og fjarlægar deildir

Þegar byggingu B-álmu spítalans sem ætluð var fyrir eldra fólk var lokið var mikið ,,slegist” um 1. hæðina. Okkur tókst með harðfylgni og góðum stuðningi ráðamanna spítalans að fá stóran hluta 1. hæðar fyrir sjúkra- og iðjuþjálfun árið 1986 þar sem starfsemin er ennþá til húsa. Þá var Jóhannes Pálmason orðinn framkvæmdastjóri og studdi vel við bakið á okkur eins og fyrirrennari hans. Það var orðið mjög tímabært að flytja úr turni bæði vegna þess að rýmið var allt of lítið og mikið brambolt að koma sjúklingum á milli deilda. Turnlyftan var farin að verða ótrygg til sjúkraflutninga, alltaf að stoppa of neðarlega, ofarlega, jafnvel milli hæða og illmögulegt að bjóða sjúklingum upp á slíka hættuför. Nýja þjálfunarrýmið var/er mjög gott, bjart og aðgengilegt.

Því skal skotið inn hér að Sjúkraþjálfun Borgarspítala veitti þjónustu dagdeild geðdeildar á Hvítabandi, um tíma Arnarholti, slysadeildarútibúi á fæðingarheimilinu og öldrunardeild í Hafnarbúðum. Undirrituð brá sér líka nokkrum sinnum á Landakot þegar þar vantaði sjúkraþjálfara. Síðar bættust líknardeild og Kleppur við þennan lista Bsp/ SHR /LHS

Nefndarstörf og þjónusta við starfsfólk

Sjúkraþjálfarar hafa verið kröftugir í félags- og skipulagsstarfi spítalans, þrír hafa verið formenn starfsmannaráðs (Kalla Malmquist, Sigrún Knútsdóttir og Guðlaug Pálsdóttir) og tveir fulltrúar ráðsins í stjórn Sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar (KM og SK). Sjúkraþjálfarar hafa veitt sjúklingum allra deilda þjónustu sem og starfsfólki. Starfsmannasjúkraþjálfarar sinntu/sinna forvarnarstarfi með fræðslu og þjálfun til að sporna við atvinnusjúkdómum. Sjúkraþjálfarar hafa einnig boðið upp á heilsurækt fyrir starfsfólk í lok vinnudags árum saman. Undirrituð sat í nokkur ár í Siðanefnd Bsp.

Talandi um setu í nefndum, þá sungu Fjallkonur (hópur sjúkraþjálfara sem sóttu nám erlendis áður en sjúkraþjálfun var kennd á Íslandi) sem skemmtu á mörgum árshátíðum FÍSÞ m.a. eftirfarandi:

(lag: Kalli á Hóli)

Hver trjónar í nefndum og stýrir þar djarft?

Hún Kalla, Kalla, Kalla, Kalla á Borgó

Hver birtist í sjónvarp´og rífur þar kjaft?

Hún Kalla, Kalla, Kalla, Kalla á Borgó

Hver er allra best hér í norðlenskunni?

Hver gengur um bæinn mjög utan við sig

og þekkir þá alls ekki mig eða þig?

En hún Kalla. Hvaða Kalla? Æ hún Kalla

Nú, hún Kalla. Já hún Kalla, Kalla, Kalla, Kalla á Borgó!

(Unnur Gutt)

Íþróttir

Sjúkraþjálfarar tóku nokkrum sinnum þátt í Norrænu sjúkrahúsleikunum f.h. spítalans og sendu þá blaklið sem vann alltaf til verðlauna. Kærust þótti okkur að sjálfsögðu gullin! Einnig voru sjúkraþjálfarar í lykilstöðum í handboltaliði kvenna á sömu leikum sem einnig vann alltaf til verðlauna.

Sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands ( HÍ ) – verkmenntun/klínisk kennsla

Það varð ljóst að ekki tækist að fá nógu marga sjúkraþjálfara til starfa á landinu nema hægt yrði að stunda grunnnám í faginu hér heima. Félag íslenskra sjúkraþjálfara barðist fyrir því undir forystu formanns, Sigríðar Gísladóttur, að koma náminu inn í HÍ. Stóðu margir galvaskir sjúkraþjálfarar með Sigríði í þessari baráttu sem og Haukur Þórðarson endurhæfingarlæknir. Einkum ber að nefna Maríu Þorsteinsdóttur og Guðlaugu Sveinbjarnadóttur sjúkraþjálfara. Þær fóru m.a. til Kanada á vegum menntamálaráðuneytis og heilbrigðimálaráðuneytis til að kynna sér háskólanám í sjúkraþjálfun þar sem það var talið til fyrirmyndar. Frá háskólanum í Manitoba kom í kjölfarið ráðgjafi til nefndar í menntamálaráðuneytinu og síðar kennari sem kenndi við námsbrautina í upphafi í eitt ár. Árið 1976 hófst sem sagt fjögurra ára B.Sc nám í HÍ. og var Ella Kolbrún Kristinsdóttur sem var nýkomin heim, eftir nám og kennslu í sjúkraþjálfun frá Bretlandi, ráðin sem námsbrautarstjóri. Í kjölfarið náðist samningur milli Bsp / sjúkraþjálfunar og HÍ um klíniskt nám á Bsp. sem og á Lsp. Nokkrir sjúkraþjálfarar Borgarspítalans og Lsp urðu einnig stundakennarar við HÍ.

Sjúkrahús Reykjavíkur (SHR)

Borgarspítali og Landakotsspítali voru sameinaðir í Sjúkrahús Reykjavíkur árið 1995. Skiptar skoðanir voru um þá framkvæmd alla, einkum varð ég vör við að starfsfólki Landakots þótti að sér vegið.

Landakot skyldi nú verða fyrir öldrunarþjónustu með áherslu á endurhæfingu og mjög gott húsnæði var útbúið fyrir sjúkra- og iðjuþjálfun þar sem Kapellan hafði verið áður. Fallegu kapellugluggarnir eru þar ennþá til prýðis. Mjög spennandi var að fá að taka þátt í að móta það þjálfunarhúsnæði með arkitekt spítalans ásamt Jóhönnu Óskarsdóttur og Jarþrúði Þórhallsdóttur sem höfðu deilt yfirsjúkraþjálfarastöðu á Landakoti. Nú átti yfirsjúkraþjálfari Borgarspítala einnig að hafa yfirumsjón með sjúkraþjálfun á Landakoti. Úr varð að yfirsjúkraþjálfari Landakots hélt sinni stöðu (Jóhanna/Jarþrúður, Bergþóra Baldursdóttir - Jóhanna), yfrsjúkraþjálfari Borgarspítala varð forstöðusjúkraþjálfari (KM), annar yfirsjúkraþjálfari var ráðinn á Borgarspítala (Sara Hafsteinsdóttir) og aðstoðaryfirsjúkraþjálfari sem starfaði á Grensásdeild varð yfirsjúkraþjálfari þar (Sigrún Knútsdóttir), sem sagt yfirsjúkraþjálfari á stóru starfsstöðvunum og forstöðusjúkraþjálfari til að sjá um samrekstur sjúkraþjálfunar SHR. Tekið skal fram að þessir yfirmenn störfuðu allir eftir sem áður við meðferð sjúklinga með sínum stjórnunarstörfum og unnu mjög vel saman og styrktu hvern annan í stjórnun og starfsmannahaldi á þessum fjórum starfsstöðvum.

Ekki er ég viss um hver var fyrsti sjúkraþjálfari á Landakoti en ímynda mér að þýsku nunnurnar hafi ráðið þýska sjúkraþjálfara til starfa á sínum tíma. Mér er tjáð að ýmsir sjúkraþjálfarar bæði erlendir og íslenskir hafi starfað á Landakoti tímabundið hér áður fyrr. En ég veit hins vegar að Ingrid Grödum skólasystir okkar Ástu Claessen frá Osló kom til Íslands að loknu námi 1967, réði sig á Landakot og starfaði þar tæpt ár og María Weixelbaumer starfaði þar 1970 – 1972.

Margir sjúkraþjálfarar hafa í kjölfar Sigríðar Gísladóttur tekið að sér stöðu yfirsjúkraþjálfara Lsp við Hringbraut mislangan tíma gegnum tíðina. Má þar nefna: Ástu Claessen, Unni Guttormsdóttur, Ella B Bjarnason, Lise Bertelsen, Bryndísi Guðmundsdóttur, Guðnýju Jónsdóttur, Valgerði Gunnarsdóttur, Guðrúnu Sigurjónsdóttur og Örnu Harðardóttur. Guðrún var um tíma í stjórn starfsmannaráðs Lsp og í nefnd um rafræna sjúkraskrá.

Landspítali Háskólasjúkrahús LSH

Áfram hélt sameiningin og Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítali voru sameinuð árið 2000. Forstöðusjúkraþjálfari (undirrituð), var fulltrúi frá SHR og Guðrún Sigurjónsdóttir yfirsjúkraþjálfari fulltrúi frá Lsp í starfshópi um endurhæfingu sem falið var í maí 1999 að gera tillögur að umfangi og rekstrarfyrirkomulagi endurhæfingarþjónustu á Lsp og SHR Á starfstíma hópsins voru spítalarnir sameinaðir þ.e. árið 2000 og gerður þjónustusamningur um endurhæfingu. Endurhæfing varð þá sérstakt svið innan LSH.

Yfirsjúkraþjálfari Lsp (GS) varð sviðstjóri ásamt Þórdísi Ingólfsdóttur deildarhjúkrunarfræðingi á Grensási og Stefáni Yngvasyni yfirlækni á Grensási. Forstöðusjúkraþjálfari SHR (KM) varð aðstoðarmaður sviðsstjóra þjálfunar m.m. og kom í framhaldi af því að ráðgjöf við starfshóp um stefnumótun endurhæfingarsviðs sem skilaði skýrslu ,,Endurhæfing á nýrri öld” í nóvember 2001. Bergþóra Baldursdóttir var formaður starfshópsins. Arna Harðardóttir var ráðin yfirsjúkraþjálfari LSH við Hringbraut. Arna tók síðar fæðingarorlof og undirrituð leysti hana af. Þegar sviðsstjóri þjálfunar hvarf til starfa utan spítalans (í Heilbrigðisráðuneytinu) var undirrituð ráðin sviðsstjóri í hennar stað. Þannig var fyrirkomulag áfram í sátt og samlyndi og sérstaklega góðri samvinnu stjórnenda í sjúkraþjálfun sem störfuðu jafnframt við meðferð sjúklinga sem áður.

Tveir sjúkraþjálfarar hafa verið í stjórn starfmannafélags LSH, Arna Harðardóttir sem formaður og Hólmfríður Erlingsdóttir, ritari.

Framhaldsnám

Sjúkraþjálfarar spítalans hafa verið kappsamir við að sækja fjölþætt námskeið í faginu hérlendis og erlendis og við hentum gaman að því að allir væru áreiðanlega með eintómar fagbækur og fagtímarit á náttborðinu. En nú er öldin önnur og allir á netinu! Undirrituð sótti auk fjölþættra námskeiða, ráðstefna og heimsþinga nám í Stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu á vegum Háskóla Íslands, (Endurmenntunarstofnunar). Það kom að góðu gagni í fjölþættu starfi í sjúkraþjálfun, stjórnun og ótal mörgum ráðum og nefndum innan spítalans og utan sem sneri þá oftar en ekki að sjúkraþjálfun og eða heildrænni endurhæfingu. Guðrún Sigurjónsdóttir var samhliða mér í þessu námi og unnum við spennandi verkefni saman. Nokkrir sjúkraþjálfarar LSH hafa tekið meistaragráður, tveir lokið doktorsnámi og tveir í viðbót eru á lokasprettinum. Nokkrir hafa auk þessa lokið diplomanámi á ýmsum sviðum og allmargir fengið sérfræðiviðurkenningu. Tveir sjúkraþjálfarar hafa setið í Vísindasiðanefnd LSH þ.e. undirrituð og Ólöf Ámundadóttir.

Glens

Á árshátíð LSH árið 1997 tróðu 10 sjúkraþjálfarar, Taumlausar Teygjur, upp með söngleik ,,Stóra sjúkrahúsið” við tónlist úr litlu Hryllingsbúðinni undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur píanóleikara og útsetjara sem útsetti og spilaði undir.

Steina Ólafsdóttir sló í gegn í svartri samfellu með svipu þegar hún söng undir lagi tannlæknisins:

Ríf úr þér stirðleikann

og ég finn mig í faginu því

geri við liðina

og fæ kikk út úr kvöl þinni og pín

er ég fer þinn fót út að toga

þú veinar sem værir í vítisloga

og þó að kúnninn sé ekki hress

ég veit að með hörpu sína á háu skýi

húkir mamma stolt af mér

Því ég er þjálfari, algjört sökksess

segðu æ, segðu ó, segðu ó og svo hnykkja.

(Sóla)

Í söngleiknum var gert var grín að sameiningunni, lokun deilda, hringlandanum, flæðinu, stjórnun og sjúkraþjálfun, veikburða sjúklingi var fylgt milli deilda þar til hann endaði á Landakoti - ,,Á Landakoti gamla fólkið grær” - eins og sungið var af innlifun.

(Já, margt var sér til gamans gert!)

Að lokum

Öllum sviðsstjórum LSH var sagt upp störfum árið 2009 og boðið starf í sínu fagi, sviðum fækkað og ráðinn framkvæmdastjóri yfir hverju rekstrarsviði. Endurhæfing var sett undir Vilhelmínu Haraldsdóttur lækni og framkvæmdastjóra. Þá pakkaði undirrituð saman og ákvað að fara á eftirlaun sátt við Guð og menn!

Þegar þetta er skráð í mars 2016, eru 76 sjúkraþjálfarar starfandi við Súkraþjálfun LSH í 65 stöðugildum, 7 sérhæfðir starfsmenn í 6 stöðugildum, 4 sjúkraliðar í 3.3 stöðugildum og 5 ritarar í 3.6 stöðugildum.

Ragnheiður Einarsdóttir yfirsjúkraþjálfari Landspítala Hringbraut er nú yfirsjúkraþjálfari LSH með yfirmenn fyrir sjúkraþjálfun á hverri starfsstöð. Sjúkraþjálfarar LSH hafa bætt við sig sérþekkingu á ýmsum sviðum. Tveir sjúkraþjálfarar eru auk ofangreindra starfandi á mannauðssviði, Bergind Helgadóttir starfsmannasjúkraþjálfari og Hólmfríður Erlendsdóttir sem er formaður öryggisnefndar LSH og í stjórn starfsmannafélagsins. Auk þeirra starfar Arna Harðardóttir á hagdeild hún er verkefnisstjóri á fjármálasviði og sinnir skráningarmálum. Hún er ritstjóri sjúkraskrár og gæðastjóri heilbrigðisupplýsinga gagnvart landlækni. Kristín Gunda Vigfúsdóttir er verkefnisstjóri á gæða- og sýkingarvarnardeild og kemur einnig að fjármálaverkefnum. Hún lauk framhaldsnámi í heilsuhagfræði.

Allmargir sjúkraþjálfarar hafa komið að teikningum “síbreytilegs” nýs Landspítala frá því að undirrituð var með í upphafi, þar er átt við umræðu um stærð og staðsetningu rýmis fyrir sjúkraþjálfun.

Ennþá er beðið eftir að sjá þennan langþráða spítala rísa!

Vonandi hefur mér tekist með þessari frásögn að vekja athygli á því hversu virkir sjúkraþjálfarar eru og hafa verið í starfsemi spítalans í heild.

Kalla Signý Malmquist, sjúkraþjálfari, (yfirsjúkraþjálfari, forstöðusjúkraþjálfari, aðstoðarmaður sviðsstjóra á endurhæfingarsviði, sviðstjóri á endurhæfingarsviði, eftirlaunaþegi ).

 

Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020