Fundur með aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra

Farið var yfir svið sjúkraþjálfunar á víðum grunni

19.4.2017

Farið var yfir svið sjúkraþjálfunar á víðum grunni

Miðvikudaginn 19. apríl sl fóru þau Unnur Pétursdóttir formaður og Veigur Sveinsson varaformaður á fund Sigrúnar Gunnarsdóttur, aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra. Auk þeirra sat Bryndís Þorvaldsdóttir, starfsmaður ráðuneytisins fundinn.

Tilgangur fundarins var að fara yfir svið sjúkraþjálfunar, vekja athygli ráðuneytisfólks á mikilvægi sjúkraþjálfunar í heilbrigðisþjónustu og brýna það til að setja endurhæfingu og heilsueflingu í forgang.

20161020_173231---cropAfar vel var tekið á móti okkur og margvísleg málefni rædd. Efst á blaði var sjúkraþjálfun aldraðra og aðgengi aldraðra að endurhæfingu, hvíldainnlagnir/endurhæfingarinnlagnir, heimasjúkraþjálfun og margt fleira sem tengist málaflokknum. Hér er risamál á ferðinni, því þjóðin eldist hratt og bara á síðustu 10 árum hefur fólki eldra en 85 ára fjölgað um 40%.

Annað mál á dagskrá var að nýta þekkingu sjúkraþjálfara í grunnheilbrigðisþjónustunni. Þar þurfti ekki mikið að sannfæra viðmælendur, því nú þegar er búið að setja niður áætlun um að fjölga fagstéttum í heilsugæslunni, þ.á.m. sjúkraþjálfurum, og mun verða byrjað að starfa eftir þeirri áætlun árið 2018.  Lögð var áhersla á í umræðunni að starfssvið sjúkraþjálfara í heilsugæslu yrði greining, ráðgjöf og eftirfylgd.

Sjúkraþjálfun á sjúkrahúsum bar einnig á góma og ánægjulegt var að það voru fulltrúar ráðuneytisins sem að fyrra bragði spurðu út í möguleika á að nýta sérþekkingu sjúkraþjálfara á bráðamóttökum.

Launamál sjúkraþjálfara, nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðiskerfinu og endurhæfing krabbameinssjúkra bar einnig á góma.

Fundurinn gekk vel í alla staði en á stuttum tíma eru takmörk fyrir því hversu mörg málefni hægt er að ræða.

 

Unnur Pétursdóttir
Form. FS