Kjarasamningur 14 aðildarfélaga BHM við SA undirritaður

Félag sjúkraþjálfara er aðili að samningnum

26.10.2017

Félag sjúkraþjálfara er aðili að samningnum

Í dag, 23. október, var undirritaður nýr ótímabundinn kjarasamningur milli annars vegar 14 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og hins vegar Samtaka atvinnulífsins. Samningurinn byggir á fyrri kjarasamningi aðila, frá árinu 2011. 


Kjarasamningur aðildarfélaga BHM og SA er ólíkur ýmsum öðrum kjarasamningum að því leyti að í honum er ekki samið um laun fyrir einstök störf eða starfsmenn. Launakjör eru hins vegar ákvörðuð í ráðningarsamningi milli vinnuveitanda og viðkomandi háskólamanns, og getur starfsmaður óskað árlega eftir viðtali við sinn yfirmann um breytingar á starfskjörum. Sérstakur skýringarrammi var settur í samninginn um þessi árlegu launaviðtöl.

Meðal helstu breytinga sem nýi kjarasamningurinn felur í sér er að staðfest er áður gert samkomulag aðila um aukið framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóði, en framlagið hækkaði í 10% 1. júlí síðast liðinn og í 11,5% frá 1. júlí 2018. Þá er vinnuveitanda skylt að greiða framlag í Starfsmenntunarsjóð BHM, en það var áður valkvætt. Ný heimildarákvæði voru sett í samninginn, er kveða á um að að valkvætt sé að greiða í Vísindasjóð viðkomandi stéttarfélags og í Starfsþróunarsetur háskólamanna.

Nýtt ákvæði var tekið inn um staðgengla, og breytt eða aukin margvísleg ákvæði í ýmsum köflum samningsins, svo sem um uppsagnarfrest á reynslutíma, breytingar á vaktavinnukafla, veikindakafla, fræðslumálum og fleiru. Þá var lögð áhersla á mikilvægi þess að vinnuveitandi og starfsmaður geri með sér skriflegan ráðningarsamning í upphafi ráðningar.

Þau 14 aðildarfélög BHM sem eru aðilar að þessum kjarasamningi munu á næstu dögum kynna hann nánar fyrir viðkomandi félagsmönnum sínum.  

Aðildarfélögin 14 eru þessi: Dýralæknafélag Íslands, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag lífeindafræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Félagsráðgjafafélag Íslands, Fræðagarður, Iðjuþjálfafélag Íslands, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga og Þroskaþjálfafélag Íslands.


Tekið af vef BHM.is