Nýjársfagnaður Félags sjúkraþjálfara

Upphaf ársins markað með skemmtilegri samkomu

15.1.2016

Upphaf ársins markað með skemmtilegri samkomu

Síðastliðið föstudagskvöld stóð félagið fyrir nýjársfagnaði með svokallaðri „PT Pub Night“ að erlendri fyrirmynd en bætti um betur og var haldin Pub Quiz þar að auki. Til verksins var fenginn Stefán Pálsson, „spurningahöfundur Íslands“ og stýrði hann keppninni af stakri snilld.

Sigurvegarar voru nokkrir ungir og sprækir drengir starfandi í Styrk, sjúkraþjálfun, þeir Baldur Gunnbjörnsson, Arnar Már Ármannsson og Sigurður Sölvi Svavarsson. Í öðru sæti voru þeir Páll Hrannar Hermannsson og Sigurjón Jóhannesson frá Stjá og Hjörtur Sigurður Ragnarsson starfandi í Sjúkraþjálfun Reykjavíkur. Í þriðja sæti var svo lið frá Lsh Fossvogi, þeir Hlöðver Bernharður Jökulsson, Kjartan Hávarður Bergþórsson, Garðar Guðnason og Hlynur Jónsson.

                  Mynd: Sigurvegarar kvöldsins ásamt spurningahöfundi.

Keppnin hófst á spurningu um upphafsstað náms í sjúkraþjálfun á Lindargötunni, en fór svo um víðan völl með viðkomu m.a. í Tinnabókunum auk þess sem kunnátta félagsmanna á veitingarekstri erlendra stórstjarna var könnuð. Sú kunnátta reyndist ekki mikil. Reyndar var það nú niðurstaðan, sérstaklega eftir að úrslit voru kynnt, að þetta hefðu verið talsvert „karllægar“ spurningar.

Flestir stöldruðu við góða stund eftir keppnina og fögnuðu nýju ári saman, rifjuðu upp gömul kynni og mynduðu ný. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá aldursbreiddina en hún spannaði allt frá glænýjum sjúkraþjálfurum til sumra sem nálgast löggildingaraldur.

 

Stjórn þakkar fyrir sérlega ánægjulegt kvöld.