Grunnmeðferð við slitgigt

Nýr fræðslubæklingur

23.2.2016

Nýr fræðslubæklingur

Við undirritaðar réðumst í að þýða fræðsluefni sem fjallar um grunnmeðferð við slitgigt. Grunnmeðferðin felst í þjálfun, fræðslu og að létta sig sé þess þörf. Bjóða ætti öllum með slitgigt þessa meðferð eins snemma í sjúkdómsferlinu og mögulegt er.

Bæklingurinn er skrifaður af tveimur sænskum sjúkraþjálfurum og var fyrst gefinn út í Svíþjóð og síðar þýddur og gefinn út á dönsku. Hann kom síðan út á íslensku núna í janúar. Bæklingurinn er faglegur, byggir á rannsóknum en um leið mjög aðgengilegur og auðveldur yfirlestrar. Hann var hugsaður fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir fólki með slitgigt en hefur einnig orðið mjög vinsæll meðal þeirra sem þjást af slitgigt og liðverkjum. Við vonum að svo verði einnig hér á landi.


Alltof margir telja, bæði heilbrigðisstarfsfólk og almenningur, að ekkert sé hægt að gera við slitgigtinni, en bæklingurinn sýnir að svo er alls ekki raunin. Margir með slitgigt og liðverki eru hræddir og óöruggir um hvað má gera og hversu mikið má hreyfa sig án þess að gera gigtina verri eða eyðileggja eitthvað. Leiðbeiningar í bæklingnum taka vel á ýmsum spurningum varðandi þetta og geta hentað sem aðalmeðferð eða sem viðbót við lyfjameðferð og skurðaðgerðir. Ekki síst er hann gott verkfæri fagaðila til að fræða og sannfæra slitgigtarfólk um að hægt sé að bæta líðan með þeirri grunnmeðferð sem bæklingurinn byggir á.

Bæklingurinn hefur verið sendur til sjúkraþjálfara í göngudeildarþjónustu, heilsugæslulækna, bæklunarlækna, gigtlækna, starfsendurhæfingarstöðva, heilbrigðisstofnana og dvalarheimila aldraðra – þeim að kostnaðarlausu. Hann verður síðan seldur til almennings. 

Hægt er að fá upplýsingar um sölustaði á fésbókarsíðu bæklingsins, Grunnmeðferð við slitgigt. Þar verður einnig deilt fróðleik og upplýsingum tengdum slitgigt.

Sólveig B. Hlöðversdóttir, sjúkraþjálfari

Svala Björgvinsdóttir, félagsráðgjafi