Fundur forsvarsmanna allra norrænu félaga sjúkraþjálfara 2016

Haldinn í Gautaborg dagana 11. – 12. apríl sl.

25.4.2016

Haldinn í Gautaborg dagana 11. – 12. apríl sl.

Við Sigurður Sölvi, stjórnarmaður, héldum  á árlegan fund forsvarsmanna allra norrænu félaga sjúkraþjálfara um miðbik þessa mánaðar. Fundurinn var haldinn í Gautaborg að þessu sinni. Farið yfir helstu málefni hvers lands fyrir sig og rætt hvað brann helst á félögunum. Svíar eru í mikilli sókn varðandi skipulag og stjórnun,  finnska félagið er að ganga í gegnum áþekkar breytingar og við gerðum fyrir nokkrum árum með sameiningu fag- og stéttarfélaga, þótt þau geri það á annan hátt en við (eru m.a. í sameiginlegu stéttarfélagi með iðjuþjálfum) og breytingarferlið hefur verið flókið og erfitt. Danir fóru í mikið átak við að ná til nýrra sjúkraþjálfara og hafa náð góðum árangri, nú eru um 83% danskra sjúkraþjálfara í félaginu. Þau hafa einnig farið í mikla vinnu til að koma meira að heilsupólitískum  ákvörðunum. Norðmenn eru mikið að vinna í að þjónusta verði aukin við eldri borgara og aldraða á hjúkrunarheimilum og eru þar í sömu hugleiðingum og við.

Seinni hluti fundar fór í undirbúning fyrir aðalfund Evrópudeildar WCPT, en hefð er fyrir því að Norðurlöndin skoði aðalfundargögnin í sameiningu  og komi fram sem ein heild. Það hefur oft reynst vel og Norrænu félögin hafa hlotið virðingu Evrópudeildarinnar fyrir vönduð vinnubrögð. Á næsta ári verður komið að okkur Íslendingum  að halda þennan samnorræna fund og verður hann haldinn í maí í Mývatnssveitinni.


Í framhjáhlaupi má geta þess að við hittum Kristínu Briem, fyrsta prófessorinn okkar í sjúkraþjálfun eina kvöldstund, en hún er nú í rannsóknarleyfi í Gautaborg.Eftir fundinn fór Sigurður heim en ég fór ásamt mörgum af norræna fundinum  á ráðstefnuna „Internatonal forum on Qualtiy & Safety in Healthcare“ sem var þverfagleg ráðstefna um gæðamál í heilbrigðisþjónustu, sem haldin var á sama stað síðari daga vikunnar. 

http://internationalforum.bmj.com/

Það er óhætt að segja að þar hafi býsna margt vakið athygli mína sem ég tel að við sjúkraþjálfarar þurfum að taka til okkar og ástæða væri til að ræða innan okkar raða. Meira um það seinna.

 

Unnur Pétursdóttir
Form. FS