Aðalfundur ER-WCPT 2016

Haldinn á Kýpur dagana  20. – 23. apríl sl

Haldinn á Kýpur dagana  20. – 23. apríl sl

Formaður sótti aðalfund ER-WCPT á Kýpur dagana 20. - 23. apríl. Fundurinn hófst með vinnusmiðju varðandi félagsaðild félaganna þar sem reynt var að grafast fyrir um það hvað félög með hátt hlutfall sjúkraþjálfara landsins gera sem er til eftirbreytni og hvað veldur því að í sumum löndum er hlutfallið afar lágt. 

Við hér á Íslandi erum í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að vera með eitt hæsta hlutfall sjúkraþjálfara innan okkar vébanda, vel yfir 90%, og var ég beðin um að fara yfir stöðuna í okkar félagi og reyna að greina það hví það er svo hjá okkur. Þjóðverjar eru hins vegar í vanda, aðeins 14% þýskra sjúkraþjálfara eru í þeirra félagi og fækkar.


Áhugavert var að heyra umfjöllum hollenska félagsins, sem um langt skeið hefur verið talið eitt öflugasta félagið. Þar urðu þær breytingar að eftir langa baráttu þeirra fengu þau árið 2005 algerlega beint og óheft aðgengi. Sjúkratryggingalögum var hins vegar breytt á sama tíma þannig að almenn tryggingafélög komu inn á þennan "markað" og los á samningi gerði fyrrum samherja að keppinautum. Með þessu fyrirkomulagi komu tryggingarfélög sterkt inn á markaðinn sem rústaði samkennd meðal sjúkraþjálfara. Í stað samstöðu kom samkeppni í útboðum og undirboð. Tryggingafélögin hafa reynst afar hörð í samningaviðræðum og eru sífellt stærri partur af öllu. Nú er því ekki lengur samið um taxta, bara umgjörð og hvað sjúkraþjálfun á að innibera. Því segja félagsmenn, því að vera í félagi sem semur ekki einu sinni um taxta fyrir mig? Aðkoma tryggingafélaganna hefur gjörbreytt leikreglunum. Þetta hefur valdið því að laun hafa almennt lækkað í einkageiranum og í samtölum mínum við hollensku fulltrúana komu fram varnaðarorð gagnvart því að sækja það stíft að fá beint aðgengi til okkar, ef breytt tryggingafyrirkomulag fylgi. Það hafi ekki reynst þeim gæfuspor. Klárlega er hér mikið umhugsunar- og umræðuefni fyrir okkur!

Aðalfundurinn sjálfur var með hefðbundnu sniði. Farið var yfir skýrslur, stefnumótun, stöðu sjúkraþjálfara gagnvart eHealth, klínískar leiðbeiningar, gæði menntunar og sérfræðiviðurkenningar, að ógleymdum fjármálunum, svo nokkuð sé nefnt. Svolítið erfitt var að sitja inni þegar sólin skein svo glatt úti!

Kosið var í lausar stöður í stjórn ER-WCPT. Sara Basin (UK) formaður situr áfram seinni hluta síns kjörtímabils og gjaldkeri hefði átt að gera slíkt hið sama en þarf að segja af sér af persónulegum ástæðum. Því var kjörinn nýr gjaldkeri, Roland Paillex (formaður svissneska félagsins, við treystum því að hann kunni að fara með peninga), Roland Craps (formaður belgíska félagsins) var endurkjörinn fyrsti varaformaður og Esther-Mary D'Arcy (Írland) var kosin annar varaformaður. Ég gaf kost á mér sem varamaður og var kjörin án mótframboðs. 


Staða varamanns er slík að ekki er ætlast til að hann sæki fundi og er hann í raun ekki kallaður til nema að einhver þurfi að hætta alfarið í stjórninni, en varamaður fær fundargerðir og þarf að vera upplýstur um stöðu mála.


Í lok fundar var fjallað um komandi ráðstefnu ER-WCPT í Liverpool í nóvember nk og eru sjúkraþjálfarar hvattir til að fjölmenna þangað. Fjölmargt áhugavert verður í boði, Emma Stokes, forseti WCPT og Kari Bö frá Noregi verða meðal aðalfyrirlesara. Forskráningu á lægra gjaldi lýkur 27. júní.

www.liverpool2016.com

Næsti aðalfundur ER-WCPT verður svo haldinn í Dublin, Írlandi í apríl 2018.


Unnur Pétursdóttir
Form. FS