Sjúkraþjálfari óskast í heilsugæslu

Sjúkraþjálfarar létta álagi af heimililæknum í Skotlandi – nú óskað eftir sjúkraþjálfara í heilsugæslu á Íslandi. Ekki ætlað til meðhöndlunar heldur greiningar, ráðgjafar og fræðslu

Sjúkraþjálfarar létta álagi af heimililæknum í Skotlandi – nú óskað eftir sjúkraþjálfara í heilsugæslu á Íslandi. Ekki ætlað til meðhöndlunar heldur greiningar, ráðgjafar og fræðslu

Sjúkraþjálfarar hafa um árabil rætt um það hversu mikilvægt það væri að fólk hefði aðgang að sjúkraþjálfurum strax í heilsugæslunni. Á árum áður voru sett á laggirnar örlítil tilraunaverkefni en þau urðu ekki langlíf, aðallega vegna þess að fjármagnið var afar takmarkað og sýnin misjöfn. Engu að síður eru þessi tilraunaverkefni dýrmæt reynsla inn í framtíðina.

Erlendis hefur þetta verið þekkt um árabil, en þó með misjöfnum hætti. Sums staðar eru sjúkraþjálfarar með hefðbundna meðferð inni í heilsugæslunni, sem hérlendis er ágætilega sinnt af fjölmörgum sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfurum og horfum við ekki til þess módels.

Hins vegar hafa aðrir farið þá leið að nýta þekkingu sjúkraþjálfara í það að létta á álagi heimilislækna og gefa fólki með stoðkerfiseinkenni kost á að fara beint til sjúkraþjálfara í stað læknis. Það er það módel sem við hér á Íslandi horfum til og lítum helst til Skotlands sem fyrirmyndar í þeim efnum. Skotar hafa verið í miklum vandræðum vegna skorts á heimilislæknum og hafa á nokkrum stöðum farið þessa leið, að virkja sjúkraþjálfara og fleiri fagstéttir til að sinna grunnheilsugæslu með góðum árangri, eða eins og segir í eftirfarandi grein: „It's a no-brainer that this initiative works and can significantly free up GPs.“

http://www.csp.org.uk/news/2016/06/15/nhsscotland-event-delegates-told-physios-are-making-gp-practices-more-efficient?utm_source=dlvr.it&utm_medium

Staða Skota varðandi skort á heimilislæknum er um margt áþekk stöðunni hér og því er ekki úr vegi að skoða þeirra reynslu af því að ráða sjúkraþjálfara til starfa:

http://www.csp.org.uk/frontline/article/stirling-success-physios-two-scottish-gp-practices

Sjúkraþjálfararnir eru þarna í hlutverki greinanda, veita fræðslu og upplýsingar og meta hvort og þá hvaða frekari þjónustu er þörf, s.s. hvort vísa þurfi viðkomandi til læknis eða í meðferð hjá meðhöndlandi sjúkraþjálfara.

Auk þess að vera í stoðkerfismóttöku er rætt um að  sjúkraþjálfarar komi inn í mæðravernd og ungbarnaeftirlit í forvarnar- og ráðgjafahlutverki, geti átt stóran þátt í lífsstílsmóttökum sem víða er rætt um að koma á laggirnar (og þar unnið vel með hreyfistjórum Hreyfiseðils) og sinni forvarnar- og fræðsluhlutverki í þeim skólum sem heilsugæslan tengist í hverju hverfi eða bæjarfélagi fyrir sig.

Félag sjúkraþjálfara, og forveri þess Félag íslenskra sjúkraþjálfara, hefur lengi unnið að því að vekja athygli á kostum og möguleikum þess að efla íslenska heilsugæslu með því að nýta krafta sjúkraþjálfara þar innanborðs. Og nú er komið að því að fyrsta heilsugæslan ætlar að láta á þetta reyna.

Heilbrigðisstofnun Austurlands er að taka upp þessa nálgun og óskar eftir sjúkraþjálfara til að taka það verkefni að sér. Sjá: http://www.physio.is/um-felagid/atvinnuauglysingar/nr/334

Hér er á ferðinni merkileg tilraun í íslensku heilbrigðiskerfi og skorum við á reynda sjúkraþjálfara að sækja um starfið og taka þátt í móta þessa bráðnauðsynlega þjónustu hér á landi.


Júní 2016
Unnur Pétursdóttir
Form. FS