Stjórn og kjaranefnd fundaði þann 14. september

Nokkur orð af fundinum og upplýsingar til félagsmanna

15.9.2016

Nokkur orð af fundinum og upplýsingar til félagsmanna

Sameiginlegur fundur stjórnar og kjaranefndar FS var haldinn þann 14. sept 2016. Rétt er að vekja athygli félagsmanna á nokkrum þeim atriðum sem þar komu til umræðu.

Lífeyrismál: Greint var frá samkomulagi varðandi breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna (og reyndar fleiri, þeirra félagsmanna sem greiða lífeyri sinn til LSR, A-deildar). Stærsta málið er að núverandi félagsmenn sem greiða til sjóðsins munu búa við jafnverðmæt réttindi og munu í raun ekki verða fyrir neinum breytingum. Nýjir félagsmenn (frá 1. jan 2017) munu hins vegar búa við lífeyrisrétt sem er sambærilegur almenna markaðnum en á móti kemur viljayfirlýsing fjármálaráðuneytis um að kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði verði einnig jöfnuð eins og kostur er.

Kjarakönnun BHM: Kjarakönnunin er mikilvægt verkfæri fyrir kjaranefnd bæði launþega og sjálfstætt starfandi í samningaviðræðum. Kjaranefnd beinir því til félagsmanna að taka þátt og sér í lagi gefa umbeðnar upplýsingar um launakjör. Svörin eru á engan hátt rekjanleg til svarenda, en þetta er mikilvægt verkfæri fyrir nefndarmenn að hafa í farteskinu.

Nýja menntunarákvæðið í rammasamningi SÍ: Sjúkraþjálfarar hafa tekið vel við sér og 78 sjþj hafa fengið álag á sínar greiðslur skv. því. Nú líður að því að umsýslan færist yfir til SÍ, svo við hvetjum þá sjúkraþjálfara sem telja sig falla undir ákvæðin en hafa ekki sótt um enn, að gera það hið fyrsta. Eftir að verkefnið færist til SÍ mun samráðsnefnd um mat á menntun, sem við eigum tvo fulltrúa í, áfram kveða úr um vafamál. Upplýsingar eru á heimasíðu FS:

http://www.physio.is/kjaramal/samningar-sjalfstaett-starfandi/ -> Bókun 2 – Mat á menntun

Þar er einnig að finna ítarlegan lista yfir þau námskeið sem búið er að meta nú þegar og hvernig þau eru metin.

Lögfræðibréf – greiðslur: Kjaranefnd beinir því til félagsmanna að vanda skýrslur til lögfræðinga en jafnframt gæta þess að taka eðlilegt gjald fyrir. Áréttað skal að greinargerð fylgir sú mögulega skylda að mæta fyrir dómi og staðfesta innihald skýrslunnar. Því er mikilvægt að vera þess fullviss að eingöngu sé það sagt sem hægt er að standa við í dómssal.

Fh. stjórnar og kjaranefndar FS
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS