Nýtt tölvukerfi sjúkraþjálfara

Stefnt er að því Gagni verði kominn í notkun á öllum sjúkraþjálfunarstöðvum fyrir miðjan desember

22.9.2016

Stefnt er að því Gagni verði kominn í notkun á öllum sjúkraþjálfunarstöðvum fyrir miðjan desember

Á næstu vikum og mánuðum verður nýtt tölvukerfi sjúkraþjálfara innleitt á sjúkraþjálfunarstofum landsins.  Kerfið sem hefur hlotið nafnið Gagni hefur verið í þróun frá vormánuðum 2015.  Gagni hefur verið í prufukeyrslum með rauntímasamskiptum við tölvukerfi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) frá seinni hluta ágústmánaðar.  Vonast er til að búið verða að sníða sem flesta vankanta af kerfinu áður en það verður tekið í almenna notkun.

Þar sem nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu tekur gildi þann 1. febrúar n.k. er afar mikilvægt að allir sjúkraþjálfarar verði þegar búnir að taka Gagna í notkun því án rauntímasamskipta við SÍ er ómögulegt að tryggja að upplýsingar um greiðsluhlutdeild sjúklins séu réttar.

Fljótlega eftir næstu mánaðarmót hefst innleiðing Gagna hjá einyrkjum og smærri stofum.  Í seinni hluta októbermánaðar hefst innleiðing á meðalstórum stofum og loks verður kerfið innleitt á stærri stofum í nóvembermánuði.  Stefnt er að því Gagni verði kominn í notkun á öllum sjúkraþjálfunarstöðvum fyrir miðjan desember.

Gagni er í vefviðmóti sem hægt verður að tengjast með mismunandi tækjum (s.s. tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma) hvar sem netsamband er til staðar.  Kerfið er í senn tímabókunarkerfi, reikningakerfi og sjúkraskráningakerfi.  Einnig eru ýmsar nytsamlegar nýjungar s.s. möguleiki á rafrænni undirritun sjúklings, að skrá biðlista og hringilista o.fl.  Þótt kerfið verði nú tekið í notkun á næstu mánuðum verður samhliða unnið að áframhaldandi þróun og betrumbótum á kerfinu.    


Fh. starfshóps um endurnýjun tölvukerfis sjúkraþjálfara
Haraldur Sæmundsson