Nýjárspistill 2019

Nokkur orð frá formanni FS

3.1.2019

Nokkur orð frá formanni FS

Árið 2018 er runnið sitt skeið á enda. Margs er að minnast en hápunkturinn hjá félaginu er óumdeilanlega að hafa verið gestgjafi alþjóðlegrar ráðstefnu, ICPPMH2018 (https://icelandtravel.artegis.com/event/ICPPMH-Conference2018 ), þar sem kastljósinu var beint að andlegri heilsu skjólstæðinga okkar. Á haustdögum var það svo samræðuþingið LÝSA á Akureyri, sem vakti athygli á þeim málefnum aftur.

20180202_170227Á kjarasviðinu var gerður stuttur kjarasamningur við ríkið í febrúar og gengið frá nokkrum stofnanasamningum á árinu. Svo stuttur er kjarasamningurinn að við verðum mætt að samningaborðinu aftur nú á vordögum, en samningurinn gildir til 31. mars 2019. Rammasamningur sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara við SÍ rennur út í lok þessa mánaðar og væntum við þess að hefja fundalotu við SÍ nú á næstu dögum.

Faglega hafa málefni sjúkraþjálfunar í heilsugæslu verið efst á baugi, sem og að efla tengsl félagsins og námsbrautarinnar okkar við HÍ. Stöðug endurmenntun og framhaldmenntun er æ stærri hluti af raunveruleika menntaðs fólks í dag og finnum við vel fyrir þörf og nauðsyn þess að bæði bjóða upp á vönduð námskeið á vegum félagsins, en ekki síður viljum við að félagið geti verið upplýsingaaðili varðandi annað  framhaldsnám, bæði hérlendis og erlendis. Mikilvægt er einnig að geta skapað sjúkraþjálfurum tækifæri til að bæta við menntun sína í gegnum nám á netinu og að tryggt sé að slíkt nám sé metið til jafns við annað. Ég sé fyrir mér að þetta verði eitt af stóru verkefnum ársins 2019 hjá félaginu.

Mér sem formanni er eftirminnileg ferð á fund norrænna formanna sem og í framhaldi ferð á fund Evrópudeildar sjúkraþjálfara. Það er alveg ljóst að þátttaka í alþjóðlegu samstarfi er okkur nauðsyn, því þær línur sem þar eru lagðar enda gjarnan á borði yfirvalda erlendis, sem svo koma aftur til okkar hér á Íslandi í gegnum erlend tengsl okkar heilbrigðisyfirvalda.

20180425_084738Það kemur skýrt fram á þessum alþjóðlegu fundum hversu mjög horft er til norrænna sjúkraþjálfara þegar fagleg mál eru til umræðu. Þá fyllist ég þakklæti í garð þeirra fumkvöðla, sem í upphafi hérlendis börðust fyrir því með oddi og egg að námið yrði innan HÍ og sú staðreynd að allir sjúkraþjálfarar á Íslandi skuli frá upphafi verið útskrifaðir með háskólagráðu er ómetanleg. Og enn erum við í farabroddi í mörgu tilliti. Á síðasta heimþingi óskaði framkvæmdastjóri ástralska félagsins eftir sérstökum fundi með mér og fundarefnið var, hvernig í ósköpunum fóruð þið að því að fá sérfræðiviðurkenningu veitta af heilbrigðisyfirvöldum? Og það á 13 kliniskum sviðum? Þá spurningu hef ég fengið frá fleirum.

Það gera sér ekki allir grein fyrir því, en sérfræðiviðurkenning í sjúkraþjálfun af hálfu heilbrigðisyfirvalda er ekki veitt nema í fáum löndum og þá í mesta lagi á fjórum kliniskum sviðum. Ekki má rugla því saman við viðurkenningar sem félögin sjálf veita, en slíkt hefur ekkert vægi gagnvart heilbrigðisyfirvöldum viðkomandi landa.

Og enn á ný drögum við vagninn ásamt nokkrum öðrum löndum með því að vera komin með námið okkar á meistarstig. En það vekur einnig vangaveltur um stöðu okkar innan heilbrigðiskerfisins. Þekking og reynsla nútíma íslenskra sjúkraþjálfara er á pari við  það besta í heiminum. Við treystum okkur til að taka að okkur margþætt hlutverk innan og utan heilbrigðisgeirans. En þurfum við þá etv líka að endurskoða eldri hefðir og vinnubrögð? Þurfum við etv að fara huga að því að eitthvað af því sem við höfum gert í gegnum tíðina væri skynsamlegra að fela öðrum og nýta alla þessa þekkingu til hins ítrasta í það sem við höfum menntað okkur til?

07Annað sem við sem stétt þurfum að huga að er hvernig við skráum og skjalfestum meðferð okkar og árangur hennar. Skráum við árangur og tilkynnum sem skyldi? Hvernig skráum við það sem miður fer? Er það yfirleitt skráð? Hvernig er gæðum og öryggi háttað á okkar vinnustöðum? Hvaða gæðavísa höfum við að leiðarljósi? Bendi hér á umfjöllun um áætlun um gæðaþróun heilbrigðisþjónustu, sem ég hvet félagsmenn til að kynna sér:

https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item36046/fyrsta-aaetlun-um-gaedathroun-heilbrigdisthjonustunnar-stadfest

Ég er oft afar stolt af kollegunum þegar ég hitti fólk á förnum vegi sem talar með væntumþykju um “sjúkraþjálfarann sinn” og lýsir því yfir hversu mjög viðkomandi sjúkraþjálfari hefur haft jákvæð áhrif á heilsu hans. Stundum er fullyrt að sjúkraþjálfarinn hafi bjargað lífi viðkomandi. Mér hlýnar við þessi orð, því ég veit að víða um land eru sjúkraþjálfarar stöðugt að vinna að heill og heilsu sinna skjólstæðinga og fá oft allt of litlar þakkir og athygli fyrir. En vita megið þið, að skjólstæðingarnir vita hver þið eruð og að þið skipið stóran sess í lífi margra þakklátra skjólstæðinga.

 

Við höldum þessari umræðu áfram, næst er það Dagur sjúkraþjálfunar þann 15. mars nk.

 

Gleðilegt nýtt ár 2019

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS