Nýjárspistill formanns 2017

Fortíð og framtíð

2.1.2017

Fortíð og framtíð

Nýtt ár – nýtt upphaf

Við nýtt ár staldrar maður ósjálfrátt við og hugsar með sér hvað það muni bera í skauti sér. Nokkrir hefðbundnir þættir munu verða áfram á dagskrá, s.s. Dagur sjúkraþjálfunar, vísindaferðir, námskeið og einstakir félags- og fræðslufundir. Unnið verður áfram að gerð stofnanasamninga þar sem þeir eru ófrágengnir og unnið verður í markaðs- og kynningarmálum varðandi fagið okkar.

Talsverð vinna mun verða á herðum stjórnar á vormisseri þar sem árlegur fundur Norrænna formanna og forsvarsmanna sjúkraþjálfarafélaganna verður þetta árið haldinn hér á Íslandi. Sem gestgjafar gáfum við Norrænum kollegum okkar val um venjulegan fund í Reykjavík eða óvenjulegan fund í Mývatnssveitinni. Þau hugsuðu sig um í 3 sek og sögðu svo öll – Mývatn!
Svo Mývatnssveitin verður það um miðjan maí.
(Mynd: Norræni hópurinn í Gautaborg vorið 2016)


Veisla framundan

Framundan eru spennandi tímar. Fyrir utan Norræna fundinn okkar í maí, verður ENPHE ráðstefnan haldin í Reykjavík í september 2017. ENPHE stendur fyrir  „European Network of Physiotherapy in Higher Education“ og er haldin fyrir háskólafólk í Evrópu sem kennir sjúkraþjálfun en verður opin íslenskum sjúkraþjálfurum og eru verkmenntunarkennarar sérstaklega hvattir til þátttöku. Nokkrir lykilfyrirlesarar munu koma til að tala á ráðstefnunni, þ.á.m Dr. Elisabeth Dean og Dr. Lynn Snyder-Mackler og mun félagið og námsbrautin standa sameiginlega að því að finna flöt á því hvernig við getum boðið félagsmönnum upp á viðburði með þessum stór-kanónum fagsins.

Þar á eftir, eða í apríl árið 2018, mun undirfélag WCPT, International Organization of Physical Therapists in Mental Health (IOPTMH) halda ráðstefnu í Reykjavík og munu Félag sjúkraþjálfara, ásamt Félagi sjúkraþjálfara um sálvefræna heilsu (FSSH) verða gestgjafar. Þar verður einnig á ferðinni valinkunnur hópur fyrirlesara og fræðimanna sjúkraþjálfara í þessum geira og skorum við á sem allra flesta að sækja þessa ráðstefnu. Það er ómetanlegt að geta boðið félagsmönnum upp á faglegar veislur af þessu tagi og skora ég á félagsmenn að sækja þessa viðburði vel. Það er ekki á hverjum degi að svona tækifæri bjóðast á heimavelli.

 

Erlend samskipti

Á ferðum mínum sem formaður FS hef ég kynnst alveg nýjum vinkli á fagpólitíkinni, en það eru erlendu samskiptin. Og réttast væri að segja að hafi ég orðið fyrir opinberun. Það er margt í gangi erlendis og það er þess virði að vera í tengslum við það! Sem klínískur sjúkraþjálfari leiddi ég hugann ekki mikið að því, satt best að segja, og áttaði mig ekkert á því starfi sem bæði ER-WCPT og WCPT leggja á sig til að tryggja þróun fagsins, stöðu þess innan heilbrigðisgeirans og allrar reglugerðir varðandi það. Þetta er gífurlega mikilvægt, því allt sem WHO, Evrópusambandið, evrópsk og norræn heilbrigðisyfirvöld ákveða, það á endanum hefur áhrif á regluverkið okkar hér heima og þar með okkar daglegu störf. Og það sem WCPT leggur fram, er grundvallað á þeim fundum sem ég hef sótt f.h. félagsins og tekið þannig þátt í að móta.
(Mynd tekin á aðalfundi ER-WCPT á Kýpur í maí 2016).

 

Nú árið er liðið

Síðastliðið ár var mér sem formanni Félags sjúkraþjálfara gjöfult, erilsamt og á stundum mikil áskorun. Fyrsta stóra áskorunin kom strax í upphafi árs þegar ég tók að mér að setjast í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) sem fulltrúi BHM. Það kom mér í opna skjöldu að BHM skyldi leita til mín með þetta verkefni, en mér þykir vænt um að vera talin traustsins verð.

Af vettvangi félagsins hófst árið með vel heppnuðum nýjársfagnaði, heldri sjúkraþjálfarar hittust dagstund í febrúar, Dagur sjúkraþjálfunar var haldinn í  mars sem og aðalfundur félagsins og haldnir voru fræðslufundir fyrir almenning um stoðkerfisverki bæði í Reykjavík og á Akureyri í maí. Tekin var sú ákvörðun að loka starfsaðstöðu okkar í ÍSÍ og hafa hana eingöngu í húsnæði okkar hjá BHM. Gamla FÍSÞ/FSSS skrifstofan var því endanlega tæmd í mars en við erum áfram með geymsluaðstöðu og námskeiðin okkar í ÍSÍ eins og áður.

IMG_4249(Mynd: Frá Degi sjúkraþjálfunar 2016)

Tvær vísindaferðir voru farnar, annars vegar í sjúkraþjálfunina Styrk í maí og svo til Endurhæfingar – Þekkingarseturs í nóvember. Stjórn fór í vinnuferð í sumarbústað í lok maí, stjórn og sameinuð kjaranefnd funduðu í september. Einnig var fundað með bæði embætti Landlæknis og forstjóra TR á árinu. Stjórn og í sumum tilfellum ásamt kjaranefnd sendu inn umsagnir um nokkur laga- og reglugerðardrög og bar það talsverðan árangur í nokkrum tilvikum.

X16---VGSíðustu tvær vikurnar í október fór ég í óvenjulegt verkefni. Ég fékk almannatengil með mér í lið og saman unnum við kynningarefni um sjúkraþjálfun sem ég kynnti síðan fyrir frambjóðendum til alþingiskosninga. Þetta var afar áhugavert og gaman, greinilega misjöfn menningin innan stjórnmálaflokkanna, en allir hlustuðu og allir sögðu fallega hluti. En hvernig spilast úr þessu á eftir að koma í ljós og stærsta spurningin er enn, hver sest í stól heilbrigðisráðherra? Náði ég að tala við viðkomandi í þessari yfirferð?
(Mynd tekin á kosningaskrifstofu VG).


Helstu verkefnin á kjarasviðinu voru þau að ljúka útfærslu menntunarákvæðisins í samningi sjúkraþjálfara við SÍ og tóku þau ákvæði gildi í febrúar. Gengið var frá einum tengisamningi launþega og nokkrum stofnansamningum en fleiri bíða endurnýjunar.

Á árinu hef ég einnig setið ráðstefnur og fundi um ýmis málefni, s.s. örorku, einelti á vinnustöðum, vinnueftirlit, samningatækni, lífeyrismál, efnahagmál og heilbrigðismál af ýmsum toga, auk ótal funda á vettvangi BHM, bæði formannaráðsfundi og fundi vegna ýmissa mála sem bandalagið fjallar um.

Erlendis átti ég góðan fund með Emmu Stokes, forseta WCPT, í Dublin í mars, sótti Norrænan fund formanna sjúkraþjálfarafélaganna í Gautaborg í apríl, aðalfund ER-WCPT á Kýpur í maí og sótti síðan ráðstefnu ER-WCPT í Liverpool í nóvember. Þar að auki var loka-skilafundur IMA verkefnisins, sem félagið hefur átt aðild að undanfarin 4 ár, haldinn í Brussel í lok júlí.       (Mynd: Við Emma Stokes í Dublin).

Árið endaði á sömu nótum og það byrjaði, þ.e. með lífeyrissjóðsmálum, en hvað þau mál varðar vísa ég í pistil Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM:

http://www.bhm.is/frettir/kaflaskil-i-lifeyrismalum-opinberra-starfsmanna

Rétt er að taka fram að stjórn LSR hefur ekkert með lagabreytingar vegna sjóðsins að gera. Hlutverk hennar er eingöngu að reka sjóðinn skv. þeim lögum sem í gildi eru hverju sinni og að tryggja að ávöxtun lífeyris sé með besta mögulega móti.

 

Að því sögðu óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegs nýs árs 2017
Unnur Pétursdóttir
Formaður Félags sjúkraþjálfara