Pistill formanns við árslok 2020

Horfum björtum augum til næsta árs

30.12.2020

Horfum björtum augum til næsta árs

Þvílíkt ár sem árið 2020 er búið að vera. Það byrjaði nú í mínum huga með ósköpunum í desember 2019, þegar stórviðri gekk yfir landið og ég fullyrði að ég hef aldrei upplifað verra veður hér á Akureyri. Illviðrin héltu áfram að banka á dyrnar og svo kom Covid.

Verkefni félagsins gjörbreyttust og einkenndust af viðbrögðum við Covid-19 faraldrinum. Fyrsta verkið var að huga að sóttvörnum, hvaða starfsemi gæti farið fram og hvernig. Næsta verkefni var að þrýsta á BHM og stjórnvöld að huga að réttindum sjálfstætt starfandi í fordæmalausum aðstæðum, sem svo sannarlega skilaði miklum árangri. Hugað var að því að koma upplýsingum um lungnasjúkraþjálfun til félagsmanna og almennings og voru sjúkraþjálfarar á Landspítala þar ómetanleg stoð og stytta. Samhliða var svo gengið í að fara þess á leit við Sjúkratryggingar Íslands að boðið væri upp á endurgreiðslu fjarsjúkraþjálfunar, sem var samþykkt og var mikið ánægjuefni.

Samhliða ofannefndum málum var samningaviðræðum við bæði ríki og borg lokið á fjarfundarformi. Aflýsa hefur þurft öllum viðburðum félagsins frá því í mars, bæði Degi sjúkraþjálfunar og flestum námskeiðum fræðslunefndar. Endurskipulagning þessara viðburða er í gangi.

Nú korter í jól barst síðan einkennileg sending frá yfirvöldum þar sem reglugerðarbreyting þrengir að möguleikum ungra sjúkraþjálfara til að hefja störf á stofum.

Þetta ár hefur því verið afar snúið og óvenjulegt, svo vægt sé til orða tekið. Öll starfsemi sjúkraþjálfunar hefur raskast og sjúkraþjálfarar þurft að gjörbylta sinni starfsemi og/eða draga úr henni og jafnvel loka um stund.

Sagt er að það sé á erfiðum tímum sem það kemur í ljós úr hverju fólk er gert og það er ljóst að sjúkraþjálfarar hafa í þessum fordæmalausu aðstæðum brugðist við að af fagmennsku, ábyrgð og æðruleysi. Fyrir það vil ég þakka og segja að ég sem formaður er óendanlega stolt af stéttinni og hvernig hún hefur farið í gegnum þetta mjög svo snúna ár af einstakri fagmennsku og ábyrgð.

Með hækkandi sól og bólusetningum er þó áreiðanlega bjartara framundan og ég er þess fullviss að starfsemi bæði félagsmanna og félagsins mun smám saman komast í samt horf á árinu.

Ég óska félagsmönnum og fjölskyldum ykkar gleðilegs nýs árs 2021

Unnur Pétursdóttir
Formaður Félags sjúkraþjálfara