Rangar fullyrðingar á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands.

Félag sjúkraþjálfara hafnar túlkun SÍ

8.11.2019

Félag sjúkraþjálfara hafnar túlkun SÍ

Eftirfarandi bréf var sent SÍ síðdegis í dag, 8. nóvember 2019.


Sjúkratryggingar Íslands
María Heimisdóttir / Baldvin Hafsteinsson
Vínlandsleið 16
113 Reykjavík.

Reykjavík, 8. nóvember 2019.

Efni: Rangar fullyrðingar á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands. Mótmæli Félags Sjúkraþjálfara.

Vísað er til færslu sem birtist á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands, www.sjukra.is, í dag 8. nóvember 2019. Í færslunni er því haldið fram að uppsagnarfrestur rammasamnings um sjúkraþjálfun sé sex mánuðir. Af því leiði að sjúkraþjálfarar séu bundnir af ákvæðum samningsins í sex mánuði miðað við mánaðamót.

Félag sjúkraþjálfara mótmælir framangreindri fullyrðingu enda er hún röng.

Til að byrja með er rétt að nefna hversu illa er að þessari tilkynningu staðið. Ekki var haft samráð við Félag sjúkraþjálfara áður en færslan var birt á heimasíðu Sjúkratrygginga og Félagi sjúkraþjálfara var ekki einu sinni tilkynnt um þessa afstöðu eftir að hún var birt.

Yfirlýsing Sjúkratrygginga er röng í öllum aðalatriðum og alvarlegt af stofnuninni að birta slíkt opinberlega. Hið rétta er að enginn uppsagnarfrestur á við.

Uppsögn samningsins á einungis við á gildistíma hans. Samningurinn gilti einungis til 31. janúar 2019, sbr. grein 16. Eftir að gildistíma samningsins lauk þarf ekki að segja honum upp.

Hafi nýr samningur ekki komist á við lok samningstíma skal starfað eftir samningnum á meðan báðir aðilar samþykkja slíkt, sbr. grein 16.2. Samkomulag tókst um að framlengja samninginn til 31. maí sl. Sjúkraþjálfarar hafa ekki skrifað undir samkomulag um frekari framlengingu.

Sjúkraþjálfarar hafa þó starfað eftir samningnum þar til í gær 7. nóvember 2019. Þann dag var Sjúkratryggingum afhent tilkynning Félags sjúkraþjálfara, ásamt umboðum sjúkraþjálfara, þar sem upplýst var að samþykki samkvæmt grein 16.2 væri ekki lengur til staðar af hálfu sjúkraþjálfara. Þeir myndu því hætta að starfa eftir samningnum frá og með 12. nóvember 2019.

Auk þess er rétt er að taka fram að þótt starfað hafi verið eftir samningnum hafa engar verðlagsbreytingar átt sér stað í þá níu mánuði sem liðnir eru frá því að gildistíma samningsins lauk. Afstaða Sjúkratrygginga felur í sér kröfu um að sjúkraþjálfarar starfi í hálft ár til viðbótar án leiðréttingar á verðum. Slík krafa fær engan veginn staðist og myndi ein og sér leiða til þess að sjúkraþjálfarar væru óbundnir af samningnum.

Þá er að lokum rétt að benda á að afstaða Sjúkratrygginga er í andstöðu við þeirra eigin athafnir. Samkvæmt núverandi útboði er áætlað að gera nýjan samning í mars 2020 en Sjúkratrygginga hafa þó ekkert hugað að meintri skyldu til þess að segja eldri samningi upp fyrir þann tíma. Miðað við afstöðu Sjúkratrygginga til gildistíma eldri samnings þá væru tveir samningar í gildi samtímis eftir að nýr samningur kemst á, það ástand myndi samkvæmt framansögðu vara í nokkra mánuði.

Með vísan til alls framangreinds er því hafnað sem fram kemur á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands að sjúkraþjálfarar séu bundnir af samningnum í sex mánuði miðað við mánaðamót.

Þá lýsir Félag sjúkraþjálfara þungum áhyggjum af því skeytingar- og ábyrgðarleysi sem birtist í tilkynningu Sjúkratrygginga. Er með ólíkindum að stofnunin birti opinberlega, án samráðs við sjúkraþjálfara, yfirlýsingu um að notendur geti vænst þess að gjaldtaka verði óbreytt í hálft ár. Yfirlýsingin er sett fram í rangri trú enda vita Sjúkratryggingar að afstaða sjúkraþjálfara er önnur enda engin slík skylda til staðar.

Þess er krafist að færslan verði fjarlægð enda skapar hún ringulreið fyrir notendur þjónustunnar.

Virðingarfyllst

________________________________

Unnur Pétursdóttir

formaður Félags Sjúkraþjálfara