Sjúkraþjálfun og kórónaveiran Covid-19

Félagið vinnur ötullega þessa dagana að mörgum ólíkum þáttum vegna veirunnar. Sóttvarnir, réttindi sjúkraþjálfara, fjarsjúkraþjálfun.

14.3.2020

Félagið vinnur ötullega þessa dagana að mörgum ólíkum þáttum vegna veirunnar. Sóttvarnir, réttindi sjúkraþjálfara, fjarsjúkraþjálfun.

Sóttvarnir

Gríðarlega mikilvægt er að allir sjúkraþjálfarar sinni sóttvörnum í hvívetna, kynni sér í þaula leiðbeiningar frá Landlækni, yfirfæri þær og framfylgi á sínum starfsstofum.

Leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsmenn: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item39200/Leidbeiningar-til-heilbrigdisstarfsmanna-vegna-COVID-19 og https://www.landlaeknir.is/koronaveira/upplysingar-fyrir-heilbrigdisstarfsfolk/

Leiðbeiningar fyrir framlínustarfmenn, þ.e. þá sem eru miklum samksiptum við viðskiptavini, og þar falla sjúkraþjálfarar undir: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38919/Lei%C3%B0beiningar-framl%C3%ADnustarfsmenn%2018022020.pdf

Mikilvægt er að sjúkraþjálfarar nái að sinna nauðsynlegri sjúkraþjálfun og ljóst að til þess að svo megi verða verða allir að nota varnir, bæði fyrir sjúkraþjálfarana og skjólstæðingana. Skv. upplýsingum frá Embætti Landlæknis eiga þær leiðbeiningar sem gefnar hafa verið út um 2m fjarlægð milli manna ekki við um heilbrigðisþjónusta. Sjúkraþjálfurum er heimilt að nota “hands-on” meðferðir, en ráðlegt er að nota héðan í frá bæði hanska og grímur, þegar verið er að meðhöndla skjólstæðinga inni í meðferðarklefum.

Réttindi sjúkraþjálfara

Fólk hefur skiljanlega miklar áhyggjur af næstu dögum og vikum. Réttindi launþega hafa verið tryggð en réttleysi verktaka kemur berlega í ljós í þessum aðstæðum. Félagið (ásamt fleirum í sömu stöðu) hefur unnið þrotlaust að því síðustu daga að vekja athygli bæði forystu BHM, aðila vinnumarkaðar og stjórnmálamanna á stöðu sjálfstætt starfandi aðila með það að markmiði að tryggja að sjálfstætt starfandi aðilar verði ekki skildir eftir útundan í hugsanlegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna áhrifum COVID-19 á vinnumarkaðinn.

Það hefur borið þann árangur að á föstudag var frumvarp um greiðslur til fólks í sóttkví afgreitt úr ríkisstjórn og fer á dagskrá Alþingis á mánudaginn, sjá: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/03/13/Frumvarp-til-laga-um-timabundnar-greidslur-vegna-launa-einstaklinga-sem-saeta-sottkvi/. Þar kemur fram að það eigi einnig við um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í drögum að frumvarpi um hlutabætur, sem félagsmálaráðherra kynnti einnig á föstudag er gert ráð fyrir úrræði fyrir sjálfstætt starfandi vegna „verulegs samdráttar.“

Fjarsjúkraþjálfun

Rætt hefur verið um þann möguleika að efla fjarsjúkraþjálfun. Ljóst er að skv. núverandi reglum er tímafrekt ferli að koma slíku á og krefst talsverðs undirbúnings, sjá: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item39676/nytt-eydublad-vegna-umsoknar-um-veitingu-fjarheilbrigdisthjonustu. Fjarsjúkraþjálfun er þar fyrir utan ekki inn í gjaldskrá sjúkraþjálfunar eins og er. Félagið telur hins vegar nauðsynlegt að í þessum fordæmalausu aðstæðum verði unnið að því að gera fjarsjúkraþjálfun mögulega, þar sem hún á við og er að kanna möguleika þess.

Fh. stjórnar FS
Unnur Pétursdóttir
Form. FS