Upplýsingar til sjúkraþjálfara varðandi tilslakanir á samkomubanni eftir 4. maí næstkomandi

Kórónuveiran og samkomubann

28.4.2020

Bréf frá félaginu - uppfært 29.4.20

Til sjúkraþjálfara

Í næstu viku, þann 4. maí, verður slakað á samkomubanni því sem verið hefur og sjúkraþjálfarar hafa leyfi til að hefja störf að nýju. Í því felst m.a. að stofur sjúkraþjálfara opna og þjálfun hefst innan hjúkrunarheimila og dagdvala. Áfram er neyðarstig almannavarna í gildi og því þarf að viðhalda þeim sóttvarnaráðstöfunum sem unnið var samkvæmt áður en gripið var til lokana. Nánar hér: https://www.physio.is/um-felagid/utgafa/frettir/verklagsreglur-sjukrathjalfunarstofu-vegna-covid-19

Þessar tilslakanir gilda frá 4. maí n.k. og þar til frekari tilslakanir verða auglýstar af hálfu yfirvalda. Sérhver stofa og starfsstaður er ábyrg fyrir sóttvörnum á sínum stað og þarf að gera eigin verklagsreglur miðað við eigin starfsemi og aðstæður í hverju sveitarfélagi á hverjum tíma.

Frá og með 4. maí er einnig veitt tilslökun er varðar þjálfun á hjúkrunarheimilum, dagdvölum og í starfsemi velferðarþjónustu. Nánar má lesa um tilslakanir hjúkrunarheimila og dagdvala á vef embættis landlæknis, sjá: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item41228/16.%20kafli.pdf

Einstaklingar mega ekki koma til meðferðar ef þeir:

a. Eru í sóttkví.

b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).

c. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.

d. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverki, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).

Hópþjálfun verður heimil, en gæta þarf að 2ja metra reglunni og að hámarksfjöldi í sal miðast við að þessi regla haldi. Gæta þarf einnig að hópnum fyrir/eftir tímana. Æskilegt er að skrá þrif í sal og af tækjum.

Frá 4. maí er heimilt opna endurhæfingarlaugar fyrir skilgreinda heilbrigðisþjónustu. Við hópþjálfun í vatni þarf að gæta að 2ja metra reglunni og að hámarksfjöldi í laug miðast við að þessi regla haldi. Gæta þarf að hópum fyrir og eftir tíma í laug og best að ekki fari allir ofan í og upp úr laug á sama tíma, þannig að 2ja metra regla haldi einnig í búningsklefa. Dæmi: Bjóða upp á frjálsan tíma í 15 mín fyrir skipulagðan tíma og 15 mín á eftir og helmingur hópsins byrji æfingar fyrr og hinn helmingurinn endi tíma á frjálsum æfingum.

Þegar meðferð krefst nándar er mikilvægt að gæta ítrustu varúðar og grípa til viðeigandi ráðstafana ef minnsti grunur vaknar um smit (gríma, hanskar). Ef hins vegar bæði sjúkraþjálfari og skjólstæðingur eru einkennalausir (eða batnað), tilheyra ekki skilgreindum áhættuhópi og ekki er um að ræða svæði þar sem um aukna smithættu er að ræða, þá er heimilt að sleppa grímum og hönskum, en rík áhersla lögð á vandaðan handþvott og sprittun. Þessi regla á einnig við innan hjúkrunarheimila og dagdvala fyrir aldraða.

Á vef Félags sjúkraþjálfara er að finna upplýsingar frá Landlækni: https://www.physio.is/um-felagid/utgafa/frettir/upplysingar-til-sjukrathjalfara-vegna-covid-19-koronaveiru

Gangi okkur öllum vel.

Við erum öll almannavarnir!

Félag sjúkraþjálfara
Dags. 29.4.2020