Upplýsingar um réttindi ef félagsmenn þurfa að fara í sóttkví vegna COVID-19

Leiðbeiningar sem bárust til aðildarfélaga BHM varðandi réttindi launþega sem þurfa að fara í sóttkví vegna COVID-19 og yfirlit yfir réttindi sjálfstætt starfandi félagsmanna

3.3.2020

Réttindi launþega og sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara ef félagsmenn þurfa að fara í sóttkví

Launþegar

Eftirfarandi upplýsingar bárust til aðildarfélaga BHM og snúa að réttindum launþega sem þurfa að fara í sóttkví

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur sent leiðbeiningar til stjórnenda stofnana vegna COVID-19 kórónaveirunnar. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið undir þær leiðbeiningar og beint þeim til sveitarfélaga. Í leiðbeiningunum kemur fram að:

  • Fari starfsmaður í sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda eða stofnunar greiðast meðaltalslaun skv. gr. 12.2.6 en fjarvistir teljast ekki veikindi og þ.a.l. ekki veikindadagar.
  • Ef starfsmaður er veikur hvort heldur um er að ræða COVID-19 eða annað er sem fyrr greitt samkvæmt almennum ákvæðum veikindakafla kjarasamninga og veikindadagar telja.
  • Veikist einstaklingur á meðan sóttkví stendur breytist skráning úr meðaltalslaunum í laun í veikindum.
  • Ef fólk fer í sóttkví að eigin frumkvæði er um að ræða orlof eða launalausa fjarveru.
  • Starfsfólk í sóttkví er hvatt til að vinna að heiman (þegar við á) enda ekki um veikindi að ræða.


Myndræna framsetningu á leiðbeiningum til sveitarfélaga má sjá hérna: https://www.samband.is/media/kjaramal/COVIT-19-leidbeiningar-SNS.pdf

Frétt á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga: https://www.samband.is/frettir/stjornsysla/leidbeiningar-vegna-covid-2019-koronaveirunnar-og-fjarveru-starfsmanna

Nánari upplýsingar um COVID-19 má finna á heimasíðu Landlæknis: https://www.landlaeknir.is/koronaveira/


Sjálfstætt starfandi félagsmenn

Að beiðni félagsins er lögfræðingur BHM að kanna nánar réttarstöðu sjálfstætt starfandi og munum við koma þeim upplýsingum á framfæri um leið og þær berast.

Að öðru leyti bendum við á eftirfarandi upplýsingar, sem eru samantekt á því sem finna má á heimasíðu BHM um réttindi sjálfstætt starfandi félagsmanna og við hvetjum fólk til að kynna sér þessi atriði vel.

  • Mikilvægt er að sjálfstætt starfandi félagsmenn séu meðvitaðir um réttindi sín og skyldur. 
  • Sjálfstætt starfandi/verktakar eiga ekki rétt á launum í veikindatilfellum og það á einnig við ef verktaki þarf að fara í sóttkví. 
  • Margir félagsmenn hafa kosið að vera með sérstaka sjúkdómatryggingu og við hvetjum fólk til að kanna hjá sínu tryggingarfélagi hver biðtími launa er og hvort sóttkví teljist þar inn í.
  • Við hvetjum þá verktaka sem hafa ekki sérstaka sjúkdómatryggingu að skoða sín mál vel 
  • Þegar kemur að aðstöðugjöldum þá eru samningar jafn ólíkir og starfsstöðvar eru margar. Við hvetjum fólk til að ræða við forsvarsmenn síns vinnustaðs um hvernig á málum yrði tekið ef til þess kemur að verktaki þarf að fara í sóttkví. Þess má geta að margar starfsstöðvar eru með rekstrarstöðvunartryggingu og mikilvægt að starfsstöðvar skoði einnig rétt sinn þar. 
  • Hér má nálgast upplýsingar um kaup og kjör sjálfstætt starfandi félagsmanna hjá BHM: https://www.bhm.is/kaup-og-kjor/sjalfstaett-starfandi/


Að sjálfsögðu hvetjum við alla félagsmenn til að vera meðvituð um sína samfélagslegu ábyrgð og skyldu. Sjúkraþjálfarar vinna oft með viðkvæmum hópi fólks og skiptir því máli að vera meðvituð um sýklavarnir og viðeigandi viðbrögð ef upp skyldi koma grunur um smit. 

Við bendum öllum á að kynna sér vef Embættis Landlæknis: https://www.landlaeknir.is/koronaveira/