Útboð Sjúkratrygginga Íslands vegna þjónustu sjúkraþjálfara fór út um þúfur

Hefja þarf nýtt innkaupaferli um sjúkraþjálfun

15.1.2020

Hefja þarf nýtt innkaupaferli um sjúkraþjálfun

Við opnun tilboða í sjúkraþjálfun hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) í dag, 15. janúar, kom í ljós að þátttaka í útboðinu var svo takmörkuð að ekki er grundvöllur til að ganga til samninga á grundvelli þess. Í tilkynningu frá Ríkiskaupum segir:

“Þar sem aðeins barst eitt tilboð og ljóst er að það uppfyllir ekki þörfum kaupand er fyrirséð er að hefja þarf nýtt innkaupaferli um sjúkraþjálfun á næstunni, hefur verið ákveðið, með hliðsjón af 65. gr. og 17. gr. OIL að gefa ekki upp kostnaðaráætlun kaupanda.”

„Þetta kemur ekki á óvart,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara. „Ég viðurkenni að forystufólki félagsins er létt. Við gátum auðvitað ekki sagt um það fyrirfram hvort margir tækju þátt í útboðinu. En strax og þessi útboðsleið var kynnt komu fram miklar efasemdir meðal félagsmanna"

Sjúkraþjálfarar hafa lengi haldið því fram að útboð SÍ sé leið sem heilbrigðisfólki er framandi auk þess sem fjölmörg skilyrði þessa útboðs voru með þeim hætti að sjúkraþjálfarar töldu þau óaðgengileg og jafnvel skaðleg fyrir þjónustuna.

Sjúkraþjálfarar starfa nú utan samnings við SÍ og er ljóst að það fyrirkomulag verður við lýði um sinn. Í gildi er reglugerð frá heilbrigðisráðherra sem heimilar endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjúkraþjálfara utan samnings. Þannig eru réttindi sjúkratryggðra tryggð og sjúkraþjálfarar geta áfram verið í rafrænum samskiptum við SÍ varðandi endurgreiðsluhluta skjólstæðinga þótt ekki sé samningur á milli aðila.

Sjúkraþjálfarar binda vonir við að viðræður við SÍ um framtíðarfyrirkomulag um innkaup á þjónustu sjúkraþjálfara leiði til farsælla lausna til framtíðar fyrir alla aðila, kaupendur, veitendur og notendur þjónustunnar.