Við áramót 2019-2020

Nýjárspistill formanns FS

2.1.2020

Nýjárspistill formanns FS


Þetta ár hefur verið markað átökum í viðræðum við viðsemjendur okkar, bæði fyrir okkur sjúkraþjálfara sem launþega og verktaka. Kjarasamningsviðræður hafa gengið ótrúlega hægt, sem markast aðallega af því að verið er að vinna að breytingum er varða styttingu vinnuvikunnar. Það virðist endalaust hægt að flækja þá umræðu út í smáatriði s.s. baunatalningu á mínútum í kaffipásum.

Staðan hjá sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfurum hefur einnig verið snúin og boðaðar hafa verið breytingar sem lúta að því fyrirkomulagi sem verið hefur á samskiptum SÍ og sjúkraþjálfara hingað til. Ýmislegt hringir varúðarbjöllum hjá okkur og við höfum vakið athygli á og reynt að afstýra, en það er ljóst að hvert sem fyrirkomulagið verður, þá verða breytingar. Ekkert varir að eilífu og því fyrr sem við áttum okkur á því að breytingar eru framundan, því fyrr getum við undirbúið og aðlagað okkur. Jafnvel gætu leynst tækifæri í breytingunum.

Ég las nýverið grein um þau ruðningsáhrif sem urðu, þegar bílaöldin hófst og hestvagnar viku úr vegi. Framleiðendur hestavagna breyttu sinni framleiðslu og hófu að framleiða bílaboddý. Smiðir sem höfðu smíðað vagnhjólin settu á stofn fyrirtæki sem framleiddu dekk. En þeir sem framleiddu svipurnar og beislin héldu því áfram í óbreyttu formi. Þeir fóru á hausinn. Boðskapur greinarinnar var: „Change or die!”

Mér sýnist á öllu að við sjúkraþjálfarar séum stödd á krossgötum í dag, breytingar eru framundan og við þurfum að takast á við þær. En það eru ekki eingöngu breytingar hér í Íslandi á starfsumhverfi okkar. Í alþjóðlegu samtali sjúkraþjálfara er einnig mikil mikil gerjun og umræða um framtíð fagsins. Hvar erum við stödd, hversu vísindaleg faggrein erum við, hver er þróunin að verða í faginu? Sumir kveða svo fast að orði að þeir tala um endalok sjúkraþjálfunar eins og við þekkjum hana.

Evrópskir háskólakennarar héldu sína árlegu ráðstefnu sl. haust undir yfirskriftinni: „The end of Physiotherapy?” og var einn aðalfyrirlesara Dr. David Nicholls, höfundur samnefndrar bókar . Svo skemmtilega vill til að sá maður hafði samband við mig nú rétt fyrir jól og óskaði eftir viðtali við mig fyrir næstu bók sína. Hann er þessa daga að ræða við sjúkraþjálfara um allan heim og spyr gagnrýnna spurninga á borð við: Til hvers erum við með fagstéttir? Þurfum við sérstakar heilbrigðisstéttir? Hver eru áhrif stéttar, kyns og kynþáttar á fagið okkar? Erum við sjúkraþjálfarar of „mekanísk”? Hvert er kall þjóðfélagsins? Hvaða þjónustu er mikilvægast að veita? Það er skemmst frá að segja að hugurinn hefur verið á fleygiferð eftir þessar samræður.

Hvernig sem á málin er litið þá eru breytingar framundan, bæði faglegar og í starfsumhverfi okkar. Mikilvægt er að félagið okkar endurspegli þær breytingar og taki sjálft breytingum eftir þörfum fagsins og stéttarinnar. Í fyrirlestri sem ég horfði á nýlega var þessi glæra upp á skjá: „Hættulegasta setning tungumálsins er: Við höfum alltaf gert þetta svona.” Við þurfum ef til vill að hugsa strúktúrinn upp á nýtt, til að tryggja að allir eigi sinn stað innan félagsins, jafnvel þótt starfsumhverfi verði breytilegt og hagsmunir geti verið misjafnir.

Fyrirkomulag á vinnumarkaði er að breytast hratt. Háskólamenntaðir finna vel fyrir því að ráðningasambönd eru ekki eins niðurnjörvuð og þau voru, sífellt fleiri eru lausráðnir, verkefnaráðnir eða sjálfstætt starfandi. Því kallar BHM til málþings nú í janúar um stöðu sjálfsætt starfandi á vinnumarkaði, þar sem horft verður til framtíðar: Hvar eru hættur, en einnig hvar geta dýrmæt tækifæri legið? Ég hvet sjúkraþjálfara að mæta á það málþing, sem haldið verður fimmtudaginn 30. janúar kl 13-16. Rétt er geta þess að Gunnlaugur Már Briem, varaformaður FS, verður þar fundarstjóri.

Þegar þetta er ritað eru kjarsamningar launþega enn ófrágengnir, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar að fara af samningi um miðjan janúar og bæði aðalfundur félagsins og Dagur sjúkraþjálfunar eru framundan. Það er engin hætta á verkefnaskorti á vormisserinu. Það er því mjög ánægjulegt að félagið hefur stigið það skref að ráða inn sjúkraþjálfara, Steinunni S. Ólafardóttur, í hálft starf til að létta undir með nefndum félagsins og efla starfsemi félagsins.

Að þessu sögðu óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegs árs og þakka fyrir samskiptin á liðnu ári.

Unnur Pétursdóttir
Formaður Félags sjúkraþjálfara