Sjúkraþjálfarar geta líka lent í kulnun

Pistill sjúkraþjálfara í bata

21.8.2018

Pistill sjúkraþjálfara í bata

Umræðan um kulnun hefur vonandi ekki farið fram hjá félagsmönnum og væntanlega hafa margir fengið til sín skjólstæðinga í þessum aðstæðum. En vert að hafa í huga að við sjálf erum ekki undanskilin þegar rætt er um hættuna á því að lenda í kulnun. Okkar klíníska starf er í raun uppskriftin að því, endalaust kapphlaup við tímann og bókanir og okkur finnst við sjaldnast hafa þann tíma fyrir skjólstæðinginn sem við vildum gefa honum.  Gleymum ekki að huga að sjálfum okkur og samstarfsfólki.                              

Gefum Anný Björg Pálmadóttur, sjúkraþjálfara á Akureyri orðið, en hún gaf okkur góðfúslegt leyfi til að birta hér færslu af facebook síðu sinni:

 

Ég þarf að koma þessu frá mér. Veit ekki af hverju...eða jú ég veit það. Kannski eru þetta síðustu vangaveltur mínar um kulnun í starfi...vonandi. Það hefur mikil þekking áunnist á þessu tæpa ári síðan ég hætti í vinnu sem sjúkraþjálfari, en alltaf má bæta. Það sem vakti upp hjá mér tilfinningar er skoðun Guðmundar Steingrímssonar í Fréttablaðinu í dag (20. ágúst 2018).

Við hrynjum eins og flugur í streitu. Vanlíðan. Þreytu. Örmögnun. Þunglyndi. Lífsviljinn minnkar. Og allt þar á milli. Þetta er ekki ádeila á fyrrum vinnustađ minn sem ég sakna mikiđ og þykir vænt um. Ég ásaka engan, ber ekki kala til neins og ef þú tekur því þannig þegar þú lest þetta þá er það á þína ábyrgð. Þetta eru orđ til umhugsunar, mínar skođanir og tilfinningar.

Fyrir þó nokkuð mörgum árum síðan fór ég að tala um leiða í starfi. Upplifði ađ ég kynni ekki nóg sama hvað ég fór á mörg námskeið, fannst ég ekki skila nógu vel af mér, fannst ég ekki standa mig gagnvart skjólstæðingum mínum, upplifði minnimáttarkennd og fann að sjálfstraustið fór minnkandi. Þetta gekk í nokkur ár og ég var frekar opin um mína líðan. Svörin voru þó gjarnan: "já en þú ert líka með stóra fjölskyldu", "þú ert nú líka að æfa kl 6 á morgnana", "þú ert nú líka að þjálfa í Líkamsræktinni"….þú, þú, þú….ég var samt bara að lýsa vanlíðan minni gagnvart vinnunni minni. Ég hélt áfram, auðvitað þarf ég bara að taka mig saman í andlitinu. Skráði mig í mastersnám. Hélt áfram að hlaupa í vinnunni, sökk í meiri vanlíðan og þreytu, minnkandi sjálfstraust. Skólinn varð andleg hvíld og gleðin í lífinu. En þetta gaf ennþá fleiri skot í hlaðarann fyrir þá sem töldu að þeir væru að leysa lífsgátuna mína þar sem nú var líka hægt að benda mér á það að vanlíðanin gæti nú líka tengst skólanum.

Eftir að hafa misst eina af mínu bestu vinkonum fór að halla meira undan fæti. Þegar þreytan og örmögnunin er komin á þetta stig, má ekkert út af bregða. Ekkert. Eftir nokkra mánuði á bensínlausum tanki og felgunum einum saman þá gekk ég á vegg. Ég grét á leið í vinnuna, óskaði þess að það yrði keyrt yfir mig, að það kviknaði í vinnunni, eitthvađ sem gæfi mér ástæđu til ađ þurfa ekki að mæta.... Ég grét í vinnunni, klukkan gekk afturábak. Ég svaf lítið sem ekkert í nokkra mánuði. Mig langaði ekki að lifa og tók þær hugsanir á næsta stig - skipulagði. Þrátt fyrir að eiga frábæra fjölskyldu, vini og nokkra sem stóðu þétt við bakið á mér, var ég orðin byrði. Skrítin hugsun, ég veit. Ég var farin að gleyma. Gat ekki snert börnin mín, manninn minn, lá í sófanum milli brjálæðiskastanna og gat ekki hugsað um heimilið. Ég mundi ekki símanúmerið mitt, hvenær börnin fæddust, af hverju ég settist upp í bílinn, hvert ég var að fara eða hvað ég var að gera. Ég kláraði allt sem ég átti eftir andlega og lìkamlega, milli 8 og 15 á daginn. Hverja örđu. Stundum brotnaði ég niður fyrir framan skjólstæðinga, oftast náði ég að leyna því en örmögnunin var slík að ég var orðin snertifælin. Ég fór í veikindaleyfi með erfiðar hugsanir varðandi lífsviljann, skömmina og uppgjöfina, "ég hefði átt að harka af mér…". Þunglyndi og lítill lífsvilji er þó tilefni til að reyna að finna litla hluti sem veita einhverja ánægju. Spurningarnar sem ég fékk í kjölfarið um það af hverju ég gæti setið í afgreiðslunni í Líkamsræktinni í nokkra tíma eða af hverju ég gæti þjálfað eldra fólk 1x í viku en ekki unnið voru ekki til að hjálpa mér að komast yfir erfiđu tilfinningarnar og hugsanir. Það er jú mikilvægt að reyna að hitta fólk, finna einhverja smá gleði, hafa örlítinn tilgang í lífinu. Það að vera heima bak við lokaðar dyr í veikindaleyfi er ekki endilega besta leiðin að bata. Hafðu það alltaf í huga. Ég veit að fólk reynir að styðja eftir bestu getu, en við getum alltaf lært meira.

Herferð VR um kulnun í starfi er kærkomin og virkilega þörf. Hún hefur þó valdið mér hugarangri þar sem setningin "Þekktu mörkin þín" hefur stuðað mig aðeins. Ég ber ađ sjálfsögđu ábyrgđ á minni líđan en hver er ábyrgð vinnustaðarins? Vinnuumhverfisins? Ég veit að kollegar mínir vinna af sér rassaboruna alla daga. Ef það dettur út skjólstæðingur þá snýst það um að fá að setja þann næsta inn í eyðuna. Vinna hraðar. Taka fleiri inn, færri pásur. Það getur veriđ erfitt fyrir okkur undir pressu að segja nei, segja ég get ekki meir. Þó svo að við þekkjum kannski mörkin okkar að einhverju leyti þá er tíminn jú peningar og viđ þurfum ađ sinna fólki sem bíđur. Við, starfsmenn í heilbrigðiskerfinu, erum eins og maskínur. Það er mín upplifun, bæði sem starfsmaður en líka sem skjólstæðingur.

Fordómar þrífast ennþá, þess vegna hætti ég ekki að tjá mig. Ég veit í dag ađ ég var dugleg. Ég veit að ég kunni helling. Ég veit að ég hjálpaði mörgum. Ég veit í dag að ég bjarga ekki heiminum. Það er bara svo dökkt yfir í þessu ástandi að ómögulegt er að sjá þessa hluti. Ég veit líka í dag að þessar athugasemdir sem ég fékk voru fordómar og þekkingarleysi. Það leikur sér enginn að því að setjast upp í formúlubíl og keyra á vegg á ofsahraða. Eða grafa holu, hoppa ofan í hana og láta moka yfir. Þetta er grafalvarlegt og rándýrt fyrir samfélagið, vinnustaðinn og einstaklinginn sem lendir í þessu.

Þú sem yfirmaður, vertu vakandi með starfsfólkinu þínu því þú berð líka ábyrgð. Þú sem samstarfsmaður, klappaðu á bakið og stattu með félaganum og bentu honum á einkennin ef þú sérð þau. Við nefnilega sjáum merkin oft ekki fyrr en við höfum fengið hellings hjálp við að skríða upp úr skurðinum. Þú sem leikmađur, ef þér líđur illa í leik og starfi reyndu þá ađ anda og finna hvađ veldur. Kannski þarftu hjálp viđ þađ.Lífið er ekki bara vinna. Vinna á að gera þér kleift að njóta samvista með fjölskyldu og vinum, geta lifað sómasamlegu lífi og gert það sem þig dreymir um. Vinnan á að vera þess eðlis að þú getir farið heim í næstu vinnu (heimilið) og haft smá orku meðferðis til að leika við börnin þín eða njóta samvista með makanum. Vinnan á að vera staður sem þér líður vel á og þú átt að geta sinnt öðru en bara vinnu. Vinnan er ekki til þess gerð að mergsjúga hverja einustu frumu úr líkamanum á þér þannig að þú missir heilsu. Það er örugglega ekki tilgangurinn með þessari vist. Ef þú kannast við eitthvað af þessu sem ég hef talað um, leitaðu þér hjálpar og kannski er kominn tími til að skipta um vinnu.

Takk fyrir að lesa, það er mér mikils virði. Takk fyrir að hafa staðið við bakið á mér, ég veit að það var ekki alltaf auðvelt. Ég þarf ekki vorkunn, mér líður vel í dag þó ég sjái ekki fram á að geta stundað þessa vinnu aftur og þó svo að það sé enn langt í land heilsufarslega séð. Ég er þakklát í dag fyrir að hafa lent í þessu, þetta hefur kennt mér svo mikið. Það koma alltaf ný tækifæri. Og það besta er að ég sé dásamlegan tilgang með lífinu.

Njóttu, lifðu, leiktu þér, brostu, faðmaðu, hrósaðu og taktu tillit til annarra, dæmdu aldrei það sem þú ekki þekkir sjálf/ur.

Knús í tonnatali út í kosmósið.

 

Við óskum Anný Björg góðs gengis og þökkum kærlega fyrir að fá að deila þessu með félagsmönnum.

Unnur P
Form. FS