Brjósklos

Hvað er til ráða?

Bakverkir eru mjög algengt vandamál. Rannsóknir sýna að 75% fólks fær bakverki einhvern tíma á ævinni, í flestum tilfellum eru þessir verkir tiltölulega meinlausir og einungis 1-3% fá það sem kallast brjósklos.

Hryggsúlan er sett saman úr 26 hryggjarliðum og eru þeir tengdir saman af brjóskþófum (hryggþófum). Þessir þættir raðast upp í súlu sem umlykur mænuna og styður við efri hluta líkamans. Brjóskþófarnir sem tengja saman hryggjarliðina eru samsettir úr bandvefshring sem liggur umhverfis hlaupkenndan kjarna. Brjóskþófinn er 80% vatn sem gerir hann mjög teygjanlegan og eykur þar með hreyfigetu hryggjarins sem er nauðsynleg fyrir athafnir daglegs lífs, auk þess sem liðþófarnir dempa höggin sem hryggurinn verður stöðugt fyrir, t.d. við hlaup og gang.

Á milli hryggjarliðanna ganga taugar út úr mænunni og í þeim eru taugaþræðir sem sjá um hreyfingar vissra vöðva, skyntaugar sem flytja boð um snertingu, hita og sársauka frá ákveðnum húðsvæðum og innri líffærum. Þar að auki eru taugaþræðir sem tilheyra ósjálfráða taugakerfinu sem flytja m.a. boð til æða og kirtla.

Brjósklos á sér stað þegar kjarninn í brjóskþófunum, sem liggja milli hryggjarliðanna, þrýstir á bandvefshringinn og veldur því að hann bungar út eða rifnar. Brjósklosið getur farið  beint aftur og þrýst á mænuna (miðlægt brjósklos) eða út til hliðar (hliðlægt brjósklos) . 


Brjósklos í mjóbaki veldur verk í baki sem getur leitt niður í annan fótinn auk skyntruflana og máttleysis eða lömunar vöðva. Verkinn leiðir oftast niður eftir rasskinn, læri að aftanverðu, kálfa og jafnvel niður í fót. Ef brjósklos á sér stað í hálshrygg leiðir verkinn oft út í handlegg auk skyntruflanna og máttleysis í handlegg og hendi. 

Brjósklos verður oftast í lendarhrygg (mjóbaki) og er það algengt hjá einstaklingum á aldrinum 30-50 ára. Brjósklos í hálsliðshlutanum  og brjósthluta hryggjarins er sjaldgæfara. Í sumum tilfellum er ekki nein þekkt ástæða fyrir því að þetta á sér stað, en hrörnun á bandvefshringnum getur valdið því að hann gefur sig og byrjar að bunga út. Brjósklos getur átt sér stað vegna slyss, rangri líkamsbeitingu við erfiða líkamlega vinnu, líkamsstöðu eða einhæfs endurtekins álags. 
Greinin er skrifuð af sjúkraþjálfara hjá Aflinu - aflid.is