2017 Desember

Pistill formanns

Pistill formanns

Þungamiðja verkefna aðventunnar þetta árið hafa verið kjaraviðræður við ríkið. Aðildarfélög BHM hafa verið í sjálfstæðum viðræðum við ríki, aðallega af þeirri ástæðu að ríkið hefur alla tíð sett öll félögin undir einn hatt þrátt fyrir afar mismunandi launasetningu þeirra. Þannig getur samningur í anda SALEK-samkomlagsins hentað sumum félögum, en það er ljóst að meira þarf að gera fyrir háskólamenntaðar heilbrigðisstéttir, þar sem launasetningin er döpur, undirmannað, mikil starfsmannavelta og/eða skortur á nýliðun.

Haldinn var samningafundur FS og Samninganefndar ríkisins (SNR) þann 12. des sl. Það tilboð sem liggur á borðinu er hins vegar ekki nóg að okkar mati og tekur ekki á þeim vanda að sjúkraþjálfarar eru lágt launasettir, byrjunarlaun eru lág og sérstaklega er vandinn mikill á Landspítalanum. SNR óskaði eftir að fá skoða málið frekar og ekki var boðaður annar fundur.

Vegna þessara viðræðna hélt kjaranefnd upplýsingafundi fyrir sjúkraþjálfara starfandi hjá ríkinu á SAk, Akureyri þann 6. des og á Landspítalanum þann 13. des.

Svo fór að formaður SNR fór fram á að fá að koma á fund allra BHM félaganna (17 talsins) sem eru í viðræðum og var orðið við því. Hann skýrði frá því að fjármálaráðuneytið væri að skoða sérstaklega vanda þar sem “mönnunar- og nýliðunarvandi” er fyrir hendi.

BHM 17 fundaði svo síðdegis 18. des. og ákvað að fara í vinnu með SNR um að skoða útfærslur á þessum grunni. Lítið mun gerast á næstu dögum, en spýtt verður í lófana strax 3. janúar og  fundað stíft. Við erum hóflega bjartsýn á að þetta skili einhverju aukreitis við upphaflegt tilboð.

En nú horfum við fram á hækkandi sól og þá birtir yfir öllu, vonandi líka kjarasamningum. Ég minni á nýjársfögnuð félagsins þann 26. janúar 2018, en að þessu sinni  munum við fagna því að fimm ár eru liðin frá sameiningu félaganna okkar þriggja og þar með eru fimm ár frá því að ég tók við sem formaður.

 

Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla, árs og friðar.

 

Hátíðarkveðja
Unnur Pétursdóttir