Aðalfundur FS var haldinn þann 14. mars 2017

Helstu fréttir af fundinum

15.3.2017

Helstu fréttir af fundinum

Sl. þriðjudagskvöld, 14. mars, var haldinn aðalfundur FS og var hann ágætlega sóttur. Fundurinn var sendur út í streymi og fylgdust nokkrir félagsmenn með fundinum í gegnum það. Fundarstjóri var Arna Harðardóttir og fundarritarar Arna Steinarsdóttir og Fjóla Dröfn Guðmundsdóttir.

IMG_5460Farið var yfir skýrslu stjórnar og kjaranefndar og reikningar lagðir fram til samþykktar. Einnig var fjárhagsáætlun næsta árs lögð fram og samþykkt, en gert er ráð fyrir ríflega 2 milljóna króna hagnaði fyrir yfirstandandi ár. Félagsgjöld verða óbreytt.

Helstu ákvarðanir fundarins voru að samþykkja lagabreytingar sem m.a. afnema hámarkssetu formanns í embætti.  Á aðalfundi félagsins árið 2016 kom fram ályktun um að endurskoða 9. grein laga FS um setu formanns og fleira og skipaði stjórn 3 manna nefnd til að fara yfir málefnið. Nefndina skipuðu þau Veigur Sveinsson, varaformaður FS, Arna Harðardóttir og Haraldur Sæmundsson. Nefndin gerði grein fyrir niðurstöðu sinni og færði rök fyrir því af hverju þau teldu 6 ára hámarkssetu óheppilega, nú þegar formannsstarfið er orðið að fullu starfi.

Í samræmi við lagabreytingarnar voru lagðar fram til kynningar starfsreglur kjörstjórnar vegna formannskjörs, sem og starfsreglur um kosningu til stjórnar og í aðrar trúnaðarstöður. Helstu nýjungar þar er framboðsfrestur og rafræn kosning formanns.

IMG_5482Gjaldkeri félagsins, Helga Ágústdóttir gaf kost á sér til stjórnarsetu til nýs tveggja ára kjörtímabils, en Sigurður Sölvi Svavarsson gekk úr stjórn. Í hans stað var kosinn  G. Haukur Guðmundsson, og er hann boðinn velkominn í stjórn félagsins. Aðrir fastanefndarmenn sitja áfram seinna ár síns kjörtímabils. Margrét Sigurðardóttir varamaður gaf kost á sér áfram, en Kristín Rós Óladóttir kemur inn sem nýr varamaður í stað Sólveigar Drafnar Arnadóttur.

Gunnar Viktorsson og Rósa Guðsteinsdóttir eru nýjir skoðunarmenn reikninga félagsins og gefa þau kost á sér áfram.

Allir kjaranefndarmenn gáfu kost á sér áfram. Varðandi aðrar nefndir verða lítilsháttar breytingar og verður gerð grein fyrir þeim í fundargerð fundarins, sem sett verður inn á innri vef félagsins fljótlega. Einnig voru gerðar aðrar lítilsháttar breytingar á lögum félagsins og verður að sama skapi gerð grein fyrir þeim í fundargerð.

 

Nánari upplýsingar munu verða í fundargerð, eins og áður segir.

 

Fh. stjórnar FS
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS