Breyttar reglur – minnkandi örorka

Umræða undanfarinna daga um hugsanlegt samband milli aukinnar greiðsluþátttöku ríkis vegna sjúkraþjálfunar og minnkunar örorku vegna stoðkerfissjúkdóma hefur væntanlega ekki farið framhjá félagsmönnum

13.11.2018

Umræða undanfarinna daga um hugsanlegt samband milli aukinnar greiðsluþátttöku ríkis vegna sjúkraþjálfunar og minnkunar örorku vegna stoðkerfissjúkdóma hefur væntanlega ekki farið framhjá félagsmönnum

Umræða undanfarinna daga um hugsanlegt samband milli aukinnar greiðsluþátttöku ríkis vegna sjúkraþjálfunar og minnkunar örorku vegna stoðkerfissjúkdóma hefur væntanlega ekki farið framhjá félagsmönnum. Þessi umræða sprettur upp í kjölfarið á vinnuskjali sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) birtu á vef sínum þriðjudaginn 6. nóv og tilkynnti sjúkraþjálfurum í tölvupósti á föstudeginum 9. nóvember. Í því skjali var verið að leggja línur að því að takmarka aðgengi að rammasamningi sjúkraþjálfara vegna mikillar aðsóknar í sjúkraþjálfun.

Forysta félagsins, ásamt samninganefnd sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara hafði veður af því að SÍ væri að huga að einhvers konar takmörkun og hefur í margar vikur verið að reyna að fá upplýsingar bæði frá SÍ og heilbrigðisráðuneyti um hvað væri í gangi til að geta upplýst félagsmenn, en fengið vægast sagt misvísandi skilaboð. Því var óhægt um vik að senda nokkuð út til félagsmanna, þar sem ekkert fékkst staðfest.

Á sama tíma vorum við að skoða tölur um minnkandi örorku vegna stoðkerfissjúkdóma og vorum búin að vekja athygli heilbrigðisyfirvalda á þeim með áskorun um að þær tölur yrðu skoðaðar og greindar áður en farið yrði í aðgerðir til að hefta aðgengi annars vegar sjúkraþjálfara að rammasamningi og hins vegar að skerða rétt sjúkratryggðra til sjúkraþjálfunar. Það kom okkur því í opna skjöldu þegar boð komu um að nýjar reglur væru komnar á heimasíðu SÍ í síðustu viku.

Fréttastofa RUV hafði heyrt af aukinni aðsókn í sjúkraþjálfun og kom að máli við félagið til að fjalla um það. Í kjölfarið hófst svo umfjöllun um bæði breytt greiðsluþátttökukerfi, aukna aðsókn í sjúkraþjálfun, breyttar reglur SÍ (sem SÍ dró til baka eftir þessa umfjöllun) og svo það sem er afar áhugavert, um fækkun öryrkja vegna stoðkerfissjúkdóma.

Sjá umfjöllun RUV:

http://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/23879?ep=7gbusa

http://www.ruv.is/sjonvarp/spila/tiufrettir/25206?ep=7gc8g4&fbclid=IwAR2ahn9Ihv1W9Kexw-r9QeTe-udrqc-VzcED45r5pwGtx8Q5gSebC3RCW38

Það má því með sanni segja að þessir dagar hafi verið fjörugir hjá forystu félagsins. Gunnlaugur Már Briem, varaformaður FS og Kristján Hjálmar Ragnarsson, formaður samninganefndar hafa tekið hitann og þungann af fjölmiðlaumræðunni að þessu sinni.

Við vitum ekki á þessu stigi málsins hver framvindan verður, en við eigum fund með heilbrigðisráðherra í næstu viku og fund með Landlækni í desember. Undirbúningur að næsta samningi er hafinn og verður boðað til fundar vegna þess á næstunni.

 

Fh. stjórnar og samninganefndar sjálfstætt starfandi,

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS