Fagnefnd Evrópudeildar sjúkraþjálfara fundar á Íslandi í febrúar 2019

Formaður Evrópudeildarinnar, Esther Mary D’Arcy, kemur með hópnum til landsins

14.1.2019

Formaður Evrópudeildarinnar, Esther Mary D’Arcy, kemur með hópnum til landsins

Það er ánægjulegt að segja frá því að fagnefnd Evrópudeildar sjúkraþjálfara mun funda á Íslandi dagana 15. – 16. febrúar 2019 í húsnæði okkar hjá BHM, Borgartúni 6, Reykjavík. Formaður nefndarinnar er Esther-Mary D’Arcy, sem er einnig formaður Evrópudeildarinnar, ER-WCPT og einnig mun David Gorria, framkvæmdastjóri ER-WCPT koma með hópnum til landsins.

 

Fimmtudagskvöldið 14. febrúar kl 20 verður haldinn opinn fundur með nefndinni sem félagsmönnum er boðið að koma á. Fundurinn er annar vegar upplýsingafundur, þar sem rætt verður um Evrópudeildina, hlutverk hennar og verkefni en ekki síður verður þetta óformlegur hittingur, þar sem félagsmönnum gefst kostur á að hitta þessa erlendu sjúkraþjálfara og kynnast þeim og þeirra starfi. Ekki er ólíklegt að gestirnir vilji líka gjarnan fá að heyra af því hvað íslenskir sjúkraþjálfarar eru að fást við. Léttar veitingar verði í boði og vonumst við til að sjá sem flesta félagsmenn.

 

Nefndin er skipuð 8 sjúkraþjálfurum frá jafnmörgum evrópskum löndum og eru  þessir sjúkraþjálfarar tilnefndir af sínum félögum, sem einnig greiða kostnað af þátttöku þeirra í nefndinni og leggja þannig sinn skerf að af mörkum til Evrópustarfs sjúkraþjálfara.

Helstu verkefni nefndarinnar eru samhæfing ýmislegs er varðar t.d. kröfur sem gera á til sjúkraþjálfara, sérfræðiviðurkenningar,  klínískar leiðbeiningar, gæðamál og fleira. Einnig að tryggja stöðu sjúkraþjálfunar innan Evrópusambandsins og innan þess er þátttaka í svokölluðu European Forum, en þar er einn nefndarmanna ráðgjafi um allt er varðar sjúkraþjálfun í heilsugæslu.

Við munum nota tækifærið og skipulagðir hafa verið fundir  með þessum aðilum hjá bæði heilbrigðisráðuneyti og þróunarskrifstofu heilsugæslunnar.

 

Nefndarmenn eru:

  • Esther-Mary D'Arcy  Formaður og forseti ER-WCPT
  • Nicole Muzar             Austurríki
  • Jill Long                     Írland
  • Nirit Rotem                Ísrael
  • Carlo Saad                 Líbanon
  • Victoria Massalha     Malta
  • Guus Meerhoff          Holland
  • Charlotte Chruzander Svíþjóð

 

 

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS