Norrænir formenn sjúkraþjálfara á Íslandi

Fundur norrænna formanna sjúkraþjálfara var haldinn í Mývatnssveitinni um miðjan maí

13.5.2017

Fundur norrænna formanna sjúkraþjálfara var haldinn í Mývatnssveitinni um miðjan maí


Dagana 9. – 11. maí sl var haldinn árlegur fundur formanna norrænu sjúkraþjálfarafélaganna.  Að þessu sinni vorum við á Íslandi gestgjafar og var ákveðið að halda fundinn í Mývatnssveitinni. Frá hverju félagi kom formaður ásamt einum eða fleirum stjórnarmeðlimum/starfsmönnum félaganna, þ.á.m. stjórn FS.

20170511_102057---cropMynd: Norrænir formenn ásamt stjórnarmeðlimum/starfsmönnum félaganna

Umræðuefnin voru margvísleg. Hvert félag sagði frá því sem er í eldlínunni hjá sér og fékk umræður, spurningar og góðar ábendingar frá kollegunum varðandi málefnin. Við fengum tvo gestafyrirlesara, sjúkraþjálfara sem starfa á NA-horni Íslands, til að ræða það hvernig það er að starfa afskekkt og einangrað og hvernig félögin geta stutt við sjúkraþjálfun í dreifbýli. Þetta voru þær Sigríður Kjartansdóttir, sjúkraþjálfari á Kópaskeri og Brynja Hjörleifsdóttir, sjúkraþjálfari á Húsavík, en hún þjónustar einnig Laugar og Mývatnssveitina einn dag í viku.

20170510_150417---cropMynd fv: Helga Ágústdóttir gjaldkeri FS, Veigur Sveinsson varaformaður FS, Arna Steinarsdóttir ritariFS, Brynja Hjörleifsdóttir og Sigríður Kjartansdóttir, sjúkraþjálfarar á NA horninu, Unnur Pétursdóttir formaður FS.

Umræða var um vaxandi þörf fyrir sjúkraþjálfara vegna fjölgunar aldraðra og mikilvægi þess að sjúkraþjálfarar og sjúkraþjálfun stuðli að því að fólk haldist sprækt eins lengi og auðið er. Einnig var mikið rætt um börn og hreyfingu og hvernig sjúkraþjálfarar geta með sína þekkingu komið þar að, sí- og endurmenntun sjúkraþjálfara var rædd og samþykkt um samnorræna félagsaðild endurnýjuð.

20170510_073952Gestirnir voru afar ánægðir með fundinn, en ekki síður með umgjörð hans. Að sjálfsögðu var Mývatnssveitin skoðuð eftir fundardagana og bauð hún upp á allt frá hávaðaroki svo varla var stætt í Námaskarði, hraglandabyl við Víti og Kröflu og svo ferskt vorloftið í Dimmuborgum. 


20170511_161433Rúsínan í pylsuendanum var heimsókn til Brynju Hjörleifsdóttur sjúkraþjálfara, en hún tók á móti hópnum í fjárhúsunum á Grænvatni þar sem sauðburður var í fullum gangi.

Tengill á umfjöllun sænska formannsins um fundinn á Íslandi:
http://stefanjutterdal.se/2017/05/12/fysioterapi-och-halsa-hos-barn-och-unga-i-fokus-pa-nordiskt-mote/

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS