Aðalfundur FS var haldinn þann 17. mars 2016

Helstu fréttir af fundinum

23.3.2016

Helstu fréttir af fundinum

Sl. fimmtudagskvöld var haldinn aðalfundur FS og var hann ágætlega sóttur. Fundurinn var sendur út í streymi, en þar sem við riðum á vaðið með nýjan tæknibúnað var óljóst hversu margir fylgdust með í gegnum streymið og væri gaman að heyra frá þeim sem það gerðu og hvernig þetta virkaði.

Fundarstjóri var Arna Harðardóttir og fundarritarar Arna Steinarsdóttir og Fjóla Dröfn Guðmundsdóttir.

Farið var yfir skýrslu stjórnar og kjaranefndar og reikningar lagðir fram til samþykktar. Einnig var fjárhagsáætlun næsta árs lögð fram og samþykkt, en gert er ráð fyrir 1,3 milljóna króna hagnaði fyrir yfirstandandi ár.

Helstu ákvarðanir fundarins voru að samþykkt var að stofna kjarabaráttusjóð FS, sem tæki til allra aðgerða sem sjúkraþjálfarar geta beitt í kjarabaráttu, hvort sem um launþega eða verktaka er að ræða. Samþykkt var að hækka kjaradeildargjöld félagsins um 0,1% til að byggja upp kjarabaráttusjóðinn og verða kjaradeildagjöld félagsins því hækkuð úr 1,1% af launum/reiknuðu endurgjaldi í 1,2%. Þessi upphæð mun skila sjóðnum um það bil 2,5 milljónum á ári og þannig getum við byggt upp þokkalegan sjóð á fáeinum árum.
Í þessu samhengi má nefna að kjarabarátta sjálfstætt starfandi árið 2014 kostaði tæpar 6 milljónir og framlag FS í verkfallssjóð BHM árið 2015 var 9 milljónir, svo ekki veitir af að eiga sjóði til þessarar eilífðar baráttu.

Lagðar voru fram starfsreglur SÞ-sjóðs og þær samþykktar, sem og að fyrsta stjórn SÞ-sjóðs yrðu þeir aðilar sem nú þegar hafa umsjón með SÞ-verkefninu, þau Auður Ólafsdóttir, Haraldur Sæmundsson og Ragnar Friðbjarnarson.

Formaður, Unnur Pétursdóttir, gaf kost á sér áfram til tveggja ára og var endurkjörin án mótframboðs. Allir stjórnarmeðlimir og varamenn gáfu kost á sér áfram og voru kosnir án mótframboða.

Joost Van Erven og Unnur Sandholt gáfu ekki kost á sér áfram sem skoðunarmenn reikninga og voru þau Gunnar Viktorsson og Rósa Guðsteinsdóttir kosin í þeirra stað.

Allir kjaranefndarmenn gáfu kost á sér áfram. Fyrir hönd launþega þær Arnbjörg Guðmundsdóttir, Birna Björk Þorbergsdóttir, Helga Ágústsdóttir og G. Þóra Andrésdóttir. Þar vantaði einn í nefndina og var Gunnlaugur Már Briem kosinn.
Fyrir hönd sjálfstætt starfandi: Auður Ólafsdóttir, Haraldur Sæmundsson, Kristján Hjálmar Ragnarsson, Rúnar Marinó Ragnarsson, Sólveig Steinþórsdóttir.  Róbert Magnússon bauð sig einnig fram í nefndina og varð því að grípa til kosningar. Svo fór að Róbert Magnússon kemur inn í nefndina en Sólveig Steinþórsdóttir hættir eftir fjölmargra ára setu í nefndinni. Eru henni hér með færðar miklar og góðar þakkir fyrir áralanga þjónustu við kollegana í samninganefndinni okkar við SÍ.

Varðandi aðrar nefndir verða lítilsháttar breytingar og verður gerð grein fyrir þeim í fundargerð fundarins, sem sett verður inn á innri vef félagsins fljótlega. Einnig voru gerðar lítilsháttar breytingar á lögum félagsins og verður að sama skapi gerð grein fyrir þeim í fundargerð.

Undir liðnum önnur mál kom fram tillaga að ályktun, sem Sigrún Knútsdóttir, fv. formaður FÍSÞ lagði fram og var eftirfarandi:

 

Tillaga að ályktun um formannskjör á aðalfundi Félags Sjúkraþjálfara 2016

„Aðalfundur Félags sjúkraþjálfara 2016 samþykkir að fela stjórn Félags Sjúkraþjálfara að skipa þriggja manna starfshóp til að endurskoða 9. grein laga félagsins um formannskjör. Að endurskoðun lokinni verði lögð fram lagabreyting um formannskjör á næsta aðalfundi félagsins. Ennfremur er hvatt til umræðu meðal félagsmanna um formennsku í félaginu um hvort félagsmönnum finnst að seta formanns geti mest verið 6 ár eða hvort endurskoða eða afnema ætti hámarkssetu formanns.“ 

Talverðar umræður spunnust um ályktunina, en rök Sigrúnar voru m.a: „Ljóst er að það tekur tíma fyrir formann að setja sig inn í öll mál félagsins og verða kynntur bæði meðal félagsmanna og meðal ráðamanna sem formaður og talsmaður félagsins.  Ég tel því að 6 ára hámarkstími fyrir formannssetu sé of skammur en formaður er þá loks kominn með góða og víðtæka reynslu þegar hann þarf að víkja sæti. ... Með því að kjósa formann einungis til tveggja ára í senn, þótt vissulega sé kostur á endurkjöri tvisvar sinnum, þá telst það lítið starfsöryggi fyrir viðkomandi og hugsanlega gætum við misst af góðum kandídötum í formannsembættið þar sem fólk er væntanlega ekki tilbúið að segja stöðu sinni lausri fyrir aðeins tveggja ára embætti...Með því að afnema hámarkstíma setu formanns í embætti tel ég að við tryggjum að við missum ekki  góðan formann úr embætti vegna laga um hámarkssetu hans í embætti eða missum af góðum kandidötum í embættið.“

Ályktunin var samþykkt og var stjórn falið að finna fólk til að ræða þessi mál og koma með tillögur á næsta aðalfundi.

Nánari upplýsingar munu verða í fundargerð, eins og áður segir.

Fh. stjórnar FS
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS