Lýðheilsustefna ásamt aðgerðaáætlun samþykkt

Frétt af vef Velferðarráðuneytis

20.10.2016

Frétt af vef Velferðarráðuneytis

Nýverið var gefin út „Lýðheilsustefna ásamt aðgerðaráætlun“, sjá neðangreinda frétt af vef velferðarrráðuneytisins. Félag sjúkraþjálfara tilnefndi einn mann í nefndina og varð þar fyri valinu Guðlaugur Birgisson, sjúkraþjálfari á Reykjalundi, en hann er með meistaragráðu í lýðheilsuvísindum og er sviðsstjóri á offitusviði Reykjalundar.

Orð Guðlaugs að nefndarstörfum loknum voru þessi: „Þetta var lærdómsríkt. Í plagginu er útlistað nánar hvað felst í stefnunni/aðgerðunum. Þar kemur fram m.a. að stefnt skuli að daglegri hreyfingu barna í leik og grunnskólum og gefinn upp tímarammi. Þetta var mitt helsta baráttumál og náði það í gegn.  Þarna er eins og áður segir reynt að hugsa út fyrir rammann og ekki verið að festa við klassíska leikfimi eða sundtíma heldur t.d. gönguferðir, leiki, léttar æfingar í skólastofu o.s.frv.  Hægt að útfæra á ýmsan máta þannig að allir njóti sín en meira um það síðar.  Þetta plagg er skref í rétta átt í lýðheilsulegu tilliti og svo er bara að vona að orðum fylgi aðgerðir.“


Þess ber að geta að Guðlaugur var ekki eini sjúkraþjálfarinn sem kom að þessars stefnu. Auður Ólafsdóttir sat einnig í nefndinni fyrir hönd SÍBS. Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér lýðheilsustefnuna.

Viðbót við fréttina, dags. 3.11.2016:

Eftir að fréttin var birt fengum við ábendingu um að þriðji sjúkraþjálfarinn sat í nefndinni, en Guðbjörg Eggertsdóttir, sjúkraþjálfari á Æfingastöðinni og lýðheilsufræðingur var fulltrúi ÖBÍ. Það er mikið ánægjuefni að sjá þrjá öfluga sjúkraþjálfara í nefnd af þessu tagi og ljóst að sýnileiki sjúkraþjálfara og aðkoma okkar að stefnumótun er að aukast.


Fh. Stjórnar FS
Unnur P

 

Fréttin á vef Velferðarráðuneytis:

4/10/2016

Sérstök ráðherranefnd um samræmingu mála samþykkti í dag lýðheilsustefnu ásamt áætlun um aðgerðir sem eiga að stuðla að heilsueflandi samfélagi. Stefnan byggist á tillögum lýðheilsunefndar sem sem skipuð var haustið 2014. Tryggt hefur verið fjármagn vegna þeirra aðgerða sem fylgja stefnunni.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti 4. mars 2014 að  setja á fót ráðherranefnd um  lýðheilsu, skipaða forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra. Jafnframt var skipuð lýðheilsunefnd undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem skyldi vinna drög að stefnu ásamt aðgerðaáætlun sem hefði það markmið að bæta lýðheilsu á öllum aldursskeiðum með sérstakri áherslu á börn og ungmenni. Þriggja manna verkefnisstjórn vann með ráðherranefndinni og lýðheilsunefndinni.

Lýðheilsunefnd hefur nú lokið stefnumótuninni í samráði við ráðherranefnd um lýðheilsu og fleiri sem hafa átt aðkomu að þessari vinnu. Heilbrigðisráðherra tók við tillögum nefndarinnar og lét kostnaðarmeta aðgerðirnar sem þar eru lagðar til svo hrinda megi stefnunni í framkvæmd.

Ráðherranefnd um lýðheilsu var lögð niður síðastliðið vor, en ákveðið var að afgreiða stefnuna af hálfu ráðherranefndar um samræmingu mála. Ráðherranefndin hittist á fundi í dag þar sem saman komu Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Ráðherrarnir staðfestu stefnuna og einnig fjármögnun aðgerða í samræmi við kostnaðarmat heilbrigðisráðherra sem unnið var í velferðarráðuneytinu. Áætlaður heildarkostnaður vegna aðgerðanna nemur rúmum 40 milljónum króna.

Í stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn að Íslendingar skuli vera meðvitaðir um að þeir beri ábyrgð á eigin heilsu og að skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir séu heilsueflandi og vinni stöðugt að því að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt því slíkt leiði til betri heilsu og vellíðunar. Þá segir að stefnumótun og ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga séu forsenda þess að lýðheilsusjónarmið séu sett í forgrunn og að heilsueflandi samfélag verði innleitt á landsvísu. Heilsusjónarmið, þar sem ætíð sé gefinn gaumur að áhrifum stefnu á heilsu og líðan allra íbúa í samfélaginu, skuli vera lykilstefið í allri stefnumótunarvinnu. Í þessu samhengi þurfi ríki og sveitarfélög að vinna saman. Heilsa í allar stefnur (e. health in all policies) hefur enn ekki verið innleidd formlega á Íslandi en hefur reynst vel annars staðar, til að mynda í Finnlandi.

Meginmarkmið lýðheilsustefnunnar er að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030. Þar undir eru sett eftirfarandi markmið um að:

1.      öll sveitarfélög verði heilsueflandi samfélög, þar með taldir leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og vinnustaðir,

2.      markvissar forvarnir fari fram á sviði uppeldis og menntunar, næringar, hreyfingar, geðræktar, tannverndar, ofbeldis- og slysavarna og áfengis- vímu,- og tóbaksvarna,

3.      draga úr tíðni langvinnra sjúkdóma,

4.      þróa félags- og heilsuvísa, tölulegar upplýsingar sem varpa ljósi á félags- og heilsufarslega stöðu landsmanna á hverjum tíma og ólíkar aðstæður ýmissa þjóðfélagshópa og

5.      við stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum heilsu og líðan á íbúa samfélagsins. Heilsa í allar stefnur krefst þess að alltaf sé stuðst við gagnreyndar upplýsingar um áhrif þátta á heilsufar.

Gert er ráð fyrir að framkvæmd þeirra verkefna sem lýðheilsustefnan felur í sér verði á ábyrgð hlutaðeigandi stjórnvalda og stofnana.

·         Lýðheilsustefna og aðgerðir sem stuðla að heilsueflandi samfélagi - með sérstakri áherslu á börn og ungmenni að 18 ára aldri

 

Tengill á fréttina sjálfa:

https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/lydheilsustefna-asamt-adgerdaaaetlun-samthykkt