Ný útgáfa kröfulýsingar í öldrunarþjónustu

Barátta FSÖ skilar miklum árangri

15.12.2016

Barátta FSÖ skilar miklum árangri


Frá árinu 2013 hefur Félag sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu (FSÖ), sem er undirfélag FS, barist fyrir breytingum á svokallaðri „Kröfulýsingu fyrir hjúkrunar- og dvalarrými“ þar sem margt sem sneri að sjúkraþjálfun og sjúkraþjálfurum þótti aðfinnsluvert. Það er skemmst frá að segja að sú barátta hefur nú skilað miklum árangri, sem Nanna Guðný Sigurðardóttir formaður FSÖ gerði grein fyrir í bréfi sínu til félagsmanna FSÖ í nóvember, þegar ný útgáfa kröfulýsingarinnar kom út. Nanna hefur veitt FS leyfi til að birta bréfið hér:


Kröfulýsing fyrir hjúkrunar- og dvalarrými:

Í lok október gaf Velferðaráðuneytið út 3.útgáfu af Kröfulýsingu fyrir hjúkrunar- og dvalarrými https://www.velferdarraduneyti.is/media/skyrslur2016/Krofulysing_fyrir_hjukrunar_og_dvalarrymi_20092016b.pdf en í henni eru settar fram almennar kröfur til hjúkrunarheimila og dvalarheimila. Önnur útgáfa kröfulýsingarinnar kom út í janúar 2013 og gerði þáverandi stjórn FSÖ skriflegar athugasemdir til ráðuneytisins um þann kafla kröfulýsingarinnar sem fjallaði um endurhæfingu og þjálfun. Stjórn FSÖ 2013 - 2015 og 2015 - 2016 hefur síðan haldið þessu máli á lofti með linnulausum fyrirspurnum til ráðuneytisins um gang mála.

Núverandi stjórn FSÖ hittist fyrir viku síðan og fór m.a. yfir kröfulýsinguna með áherslu á þá kafla sem sneru að sjúkraþjálfun á hjúkrunarheimilum. Stjórnin telur ráðuneytið hafa tekið tillit til athugasemda FSÖ í öllum megin atriðum en ég mun nú útlista þessar breytingar hér á eftir:

 

Í 2.útgáfu af kröfulýsingunni kom fram að sjúkraþjálfari á hjúkrunarheimili tæki m.a. að sér þjálfun á líkamlegri færni sem læknir hefði gefið fyrirmæli um á formlegan hátt. Eins og við vitum, þá var á þessum tíma ekki lengur þörf á beiðni frá lækni um sjúkraþjálfun íbúa á hjúkrunarheimilum og skaut því skökku við að halda þessu inni í nýrri útgáfu af kröfulýsingunni.  

 

Í sömu útgáfu kom fram að endurhæfing fæli í sér að íbúi öðlaðist og héldi við sem mestri mögulegri líkamlegri, vitrænni og félagslegri sjálfsbjargargetu. Endurhæfing í þeim skilningi væri veitt með almennt styrkjandi og heilsubætandi þjónustu fyrir íbúa af öðrum en sérhæfðum þjálfurum… Endurhæfing ætti sem sagt að vera í höndum allra annarra en sjúkraþjálfara!

 

Einnig kom fram að þjálfun skyldi vera í höndum sjúkraþjálfara. Hér er textinn eins og hann kemur fram í 2.útgáfu kröfulýsingarinnar og þið sjáið að við þetta gat FSÖ ekki unað. 

 

12-16-FSO-1

Í 3. og nýjustu útgáfu kröfulýsingarinnar var tekið tillit til athugasemda FSÖ og svona birtist textinn um endurhæfingu og þjálfun núna:

 

12-16-FSO-2

Eins og þið sjáið, þá hafa þessar breytingar orðið:

  • Ekki er minnst á það að beiðni þurfi fyrir sjúkraþjálfun
  • Endurhæfing/þjálfun er á ábyrgð sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og talmeinafræðinga…
  • Heilsueflandi þjálfun getur verið veitt af öðrum en sérhæfðum þjálfurum
  • Að auki er nú sérstaklega tekið fram, sem ekki var gert í 2.útgáfunni, að sjúkraþjálfari skyldi vera ábyrgur fyrir sjúkraþjálfun íbúa, sem felur það í sér að aðeins sjúkraþjálfarar geti verið yfir endurhæfingardeildum á hjúkrunarheimilum

 Við fögnum að sjálfsögðu þeim árangri sem FSÖ náði varðandi þessi mál í kröfulýsingunni en við megum ekki sofna á verðinum og þurfum sífellt að vera vakandi fyrir mikilvægi sjúkraþjálfunar fyrir aldraða.

Nanna Guðný Sigurðardóttir