Reglugerðarbreytingar og áhrif þeirra á starfsemi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara

Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings við SÍ frá ársbyrjun 2020

3.2.2021

Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings við SÍ frá ársbyrjun 2020


Frá því í ársbyrjun 2020 hafa sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar starfað án samnings við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Skjólstæðingar sjúkraþjálfara hafa engu að síður notið endurgreiðslu sinnar meðferðar skv. endurgreiðslureglugerð frá heilbrigðisráðherra, sem heimilar SÍ að endurgreiða meðferð sjúkraþjálfara þótt ekki sé samningur við SÍ í gildi.

Breytingar á endurgreiðslureglugerð heilbriðgðisráðherra vegna sjúkraþjálfunar:

Þann 1. nóv 2020 var gerð sú breyting að afnumin var heimild sjúkratryggðra til að leita aðstoðar sjúkraþjálfara í allt að 6 skipti án aðkomu læknis. Félag sjúkraþjálfara, Félag heimilslækna og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mótmæltu þessari ráðstöfun ráðherra, þar sem engin fagleg rök lágu þarna að baki, óhagræðið mikið fyrir skjólstæðingana og aukið álag á heilsugæslu í miðjum Covid-faraldri. Ráðherra sá ekki ástæðu til að endurskoða ákvörðun sína.

Þann 1. janúar 2021 var enn gerð breyting þannig að endurgreiðslur eru háðar eftirfarandi: “Skilyrði er að sjúkra­þjálfarinn hafi starfað í að minnsta kosti tvö ár sem sjúkraþjálfari, í að minnsta kosti 80% starfs­hlutfalli, eftir löggildingu.”

Reglugerðin takmarkar mjög möguleika ungs fólks til starfa á þeim vettvangi sem það kýs og hefur menntað sig til og er alvarleg í ljósi þeirra nýliðunar sem þörf er á hjá stofum sjúkraþjálfara. Fagleg rök eru ekki fyrir hendi og hafa engar skýringar verið gefnar fyrir þessari ákvörðun.

Reglugerðin er sett án lagastoðar, sem Félag sjúkraþjálfara telur alvarlega aðför að starfsréttindum og atvinnufrelsi sjúkraþjálfara – sjá minnisblað lögfræðinga MAGNA.

Minnisblað MAGNA 

Rétt er að hnykkja á alvarleika þessarar breytingar m.þ.a. vekja athygli á eftirfarandi:

1. Biðlistar hjá sjúkraþjálfurum eru nú þegar talsverðir. Það er óumdeilt að bið eftir þjónustu eykur vanda og gerir meðferð bæði lengri og dýrari. Skerðing á nýliðun mun eingöngu auka á þennan vanda.

2. Nú eru 40 ár frá því að fyrsti árgangur íslensk menntaðra sjúkraþjálfara útskrifaðist frá HÍ (1980), og því eru nú fyrstu stóru hópar sjúkraþjálfara að hverfa af vinnumarkaði sökum aldurs. Það eykur á endurnýjunarþörf á starfsstofum sjúkraþjálfara.

3. Landsbyggðin hefur lengi treyst á bæði afleysingar og nýliðun í gegnum nýútskrifaða sjúkraþjálfara. Þessi breyting mun fyrirsjáanlega auka verulega á vanda landsbyggðar að fá til sín þjónustu sjúkraþjálfara.

4. Breytingin er alvarleg aðför að jafnrétti. Þekkt er að ungt fólk fer í barneignir að loknu löngu háskólanámi. Skilyrðing við 80% starfshlutfall er aðför að rétti ungs fólk til að haga lífi sínu þannig það geti samræmt fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku að eigin ósk.

Félag sjúkraþjálfara hefur sent bréf til heilbrigðisráðherra, dags. 1.febrúar, þar sem þessu ákvæði er mótmælt og farið fram á að það verði afnumið.

Bréf til HRN frá FS 

Sjúkratryggingar Íslands hafa frá því að síðasti samningur milli SÍ og sjúkraþjálfara rann út (2019) sett fram þá kröfu að eingöngu verði samið við fyrirtæki sjúkraþjálfara, en ekki einstaklinga/einyrkja, eins og verið hefur um 50 ára skeið. Sú kerfisbreyting þarfnast mun betri undirbúnings en svo aðhenni sé skellt fram með nokkurra vikna fyrirvara, eins og gert var 2019. Sjúkraþjálfarar hafa t.a.m. miklar áhyggjur af veitingu þjónustu á landsbyggðinni, þar sem ekki er grundvöllur fyrir annað en einyrkja. Einnig er áhyggjuefni hvernig fer með sjúkraþjálfun sem í dag er veitt út frá hjúkrunarheimilum um allt land. Þar er fyrirkomulagið gjarnan þannig að sjúkraþjálfari er í hlutastarfi hjá stofnuninni og þjónustar heimilsfólk, en leigir svo aðstöðuna að hluta og sinnir eldri borgurum í nálægum þjónustuíbúðum í sjálfstæðri verktöku. Slíkt verður óheimilt, ef ítrustu kröfur SÍ er þetta varðar ná fram að ganga. Fleiri atriði má telja sem eru óleyst í þessari umræðu.


Reglugerð um endurgreiðslur kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands – sú upphaflega ásamt síðari breytingum:

https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/hrn/nr/22296

Uppfært, dags. 20. feb 2021

Svarbréf barst frá Heilbrigðisráðuneytinu þann 17. febrúar þar sem fram kemur að Heilbrigðisráðuneytið telur ráðherra hafa fulla heimild til að "grípa til ráðstafana"...

Sjá svarbréf ráðuneytis:

Svar HRN við erindi FS og minnisblaði


Unnur Pétursdóttir
Formaður Félags sjúkraþjálfara